Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 22. október 2019 kl. 17:27

Sjónvarp: Ungmennin fá hugmyndir að framtíðarstörfum

Yfir eitthundrað aðilar úr atvinnulífinu kynntu störf á Suðurnesjum á sérstakri starfakynningu fyrir grunnskólanemendur í Íþróttahúsi Keflavíkur í síðustu viku. Yfir 800 nemendur í 8. og 10. bekk mættu og kynntu sér fjölbreytt framboð starfa á Suðurnesjum.

Að sögn Hönnu Maríu Kristjánsdóttur hefur tekist vel að skipuleggja og halda kynningarnar, ekki síst vegna mikillar velvildar fyrirtækja og einstaklinga á Suðurnesjum og höfuðborgarsvæðinu. Sömu aðilar hafa tekið þátt ár eftir ár og gefið tíma sinn. „Án þessa mikla stuðnings atvinnulífsins væri ómögulegt að halda kynningu sem þessa, sem er þýðingarmikil fyrir alla sem að henni koma – nemendur, skóla og fyrirtæki. Öflug náms- og starfsfræðsla er sérstaklega mikilvæg til að auka líkur á því að nemendur velji það framhaldsnám sem þeir hafa mestan áhuga á og hentar þeim best. Rétt val dregur úr líkum á brotthvarfi úr námi sem hefur verið of mikið hér á landi síðustu ár. Þá styrkir kynning sem þessi tengsl atvinnulífs og skóla sem skipta miklu máli, sérstaklega þegar kemur að iðn- og starfsnámi sem og námi í tæknigreinum,“ sagði Hanna.

Sjónvarp Víkurfrétta leit við á starfakynningunni og ræddi við nokkra nemendur og aðila úr atvinnulífinu.