Föstudagur 16. nóvember 2018 kl. 10:31

Sjónvarp: Styrkir sambandið milli Pólverja og heimamanna

- sjáið innslagið úr Suðurnesjamagasíni með fréttinni

„Ég er bara í skýjunum með hátíðina. Frábær þátttaka og skemmtilegur dagur hér í bókasafninu. Gefur okkur byr undir báða vængi um framhaldið að styrkja sambandið milli Pólverja og heimamanna,“ sagði Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, forstöðumaður fjölmenningarsviðs Reykjanesbæjar en húsfyllir varð á pólskri menningarhátíð á þjóðhátíðardegi Póllands.
 
Boðið var upp á tónlistaratriði og pólskar veitingar í bókasafninu. Pólsk ungmenni voru kynnar og sáu um atriðin og stóðu sig með mikilli prýði. Þetta var í fyrsta sinn sem svona hátíð er haldin.
 
Gerard Pokruszynski, sendiherra Pólverja á Íslandi mætti ásamt eiginkonu sinni á hátíðina og var mjög ánægður þegar VF ræddi við hann. „Í Reykjanesbær eru hlutfallslega flestir Pólverjar. Þessi hátíð verður örugglega til þess að styrkja frekar sambandið milli þeirra og íbúa á Suðurnesjum. Þeir eru mjög ánægðir og hafa margir atvinnu hér á svæðinu og vilja styrkja böndin. Það mun gerast, ég er sannfærður um það.“