Laugardagur 24. október 2020 kl. 09:21

Sjónvarp: Aron Friðrik og kraftlyftingarnar

„Ég byrjaði í Crossfit og lóðalyftingar þar leiddu mig í kraftlyftingar. Svo var ég líka að hlaupa en sá fljótt að það var ekki alveg að gera sig fyrir rúmlega 100 kílóa mann,“ segir Aron Friðrik Georgsson, kraftlyftingakappi og margfaldur Íslandsmeistari í -120 kg. flokki. Aron er Suðurnesjamaður en býr núna í Hafnarfirði með fjölskyldu sinni og æfir kraftlyftingar hjá Stjörnunni í Garðabæ.

Aron Friðrik gerir gott betur en að æfa kraftlyftingar því hann hefur síðustu árin verið formaður  lyftingadeildarinnar. Hann stundaði grunnskólanám í Reykjanesbæ og útskrifaðist sem stúdent frá náttúrufræðibraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Reyndi svo fyrir sér í verkfræði í Háskólanum því stærðfræði lá vel fyrir honum en sá að það var ekki að gera sig fyrir hann. Eftir nokkur ár í starfi hjá Isavia tók hann viðskiptafræði í Háskóla Íslands og lauk námi þar 2017. Viðskiptafræðingurinn starfar nú hjá fyrirtækinu Klöppum Grænum lausnum sem sérhæfir sig í grænum lausnum á sviði umhverfismála. Kraftlyftingar eiga síðan hug hans allan þegar kemur að áhugamálum og þær eru orðnar að lífsstíl. Víkurfréttir heimsóttu kappann í bílskúr tengdaforeldra hans í Hafnarfirði þar sem hann æfir á veirutímum og spurðu hann út í lóðalyftingarnar.

Í spilaranum hér að ofan má sjá viðtalið við Aron Friðrik.

Hér má lesa viðtalið við Aron Friðrik á vf.is.