Föstudagur 2. febrúar 2018 kl. 14:11

Safna undirskriftum til varnar Sundhöll Keflavíkur

- Viðtal við Ragnheiði Elínu í Sjónvarpi Víkurfrétta

Hollvinasamtök Sundhallar Keflavíkur hafa verið stofnuð og hafin er söfnun undirskrifta undir áskorun til bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ um að fresta afgreiðslu breytingar á deiliskipulagi á svæðinu sem heimilar niðurrif Sundhallar Keflavíkur. Hollvinir Sundhallarinnar vísa til bréfs Minjastofnunar Íslands til skipulagsyfirvalda, þar óskað hefur verið eftir frestun svo tækifæri gefist til að finna húsinu verðugt hlutverk og varðveita.
 
Hollvinir Sundhallar Keflavíkur héldu fjölmennan íbúafund í gærkvöldi í bíósal Duus Safnahúsa. Þar voru flutt erindi um Sundhöll Keflavíkur og um verndun gamalla húsa. Flutt var erindi um Guðjón Samúelsson, húsameistara ríkisins, sem m.a. teiknaði Sundhöll Keflavíkur og tvær aðrar byggingar í Keflavík, fyrstu byggingu sjúkrahússins og Myllubakkaskóla.
 
Pétur Ármannsson arkitekt flutti erindi á fundinum og sagði húsið hefði ótvírætt byggingar- og menningarsögulegt gildi en allir sem töluðu á fundinum í gær töluðu fyrir því að Sundhöll Keflavíkur fái að standa og hún fái verðugt hlutverk á ný.
 
Ragnheiður Elín Árnadóttir, fv. ráðherra, telur mikilvægt að bæjaryfirvöld staldri við og endurskoði áform sem heimila niðurrif byggingarinnar. Nú verði ráðist í söfnun undirskrifta og þær afhentar áður en viðkomandi yfirvöld þurfa að taka sína ákvörðun.
 
Sjónvarp Víkurfrétta tók nokkuð ítarlegt viðtal við Ragnheiði Elínu eftir fundinn í gær sem sjá má í spilaranum hér að ofan.