Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 31. ágúst 2020 kl. 10:49

Sæluhús og útilistaverk um allan Reykjanesbæ

Hughrif í bæ er hópur 17 til 27 ára ungmenna sem hafa unnið að skapandi verkefnum í sumar.

„Þetta er búið að ganga frábærlega og við viljum þakka kærlega fyrir viðtökur fólks sem hafa verið mjög góðar. Starfið í hópnum hefur gengið mjög vel og markmiðið gengið eftir en það var að lífga upp á bæinn,“ segir Hildur Hlíf Hilmarsdóttir, annar tveggja verkefnisstjóra hópsins Hughrif í bæ í Reykjanesbæ. Hinn var Krummi Laxdal, myndlistarmaður, og saman hafa þau verið í nýju verkefni fyrir ungt fólk í sumar.

Málað og skapað um allan bæ

Hópurinn saman stóð af fimmtán ungmennum á aldrinum 17 til 27 ára sem öll höfðu hugmyndir og koma úr skapandi greinum. Í sumar hefur hópurinn staðið að hinum ýmsu skemmtilegu verkefnum í Reykjanesbæ. Við greindum frá því í síðasta tölublaði Víkurfrétta þegar hópurinn málaði hluta Tjarnargötunnar fyrir framan ráðhús Reykjanesbæjar í öllum regnbogans litum á táknrænan hátt. Þá varð til þessi flotta skessa á gafli Svarta pakkhússins sem snýr að Hafnargötunni en þar er hún með tvo hægri fætur. Hópurinn gerði fleiri skemmtileg verkefni við Svarta pakkhúsið og Fishershúsið. 

Síðustu verkefni sem hópurinn hefur klárað eru m.a. „Takk“ veggur og  þá voru glæsileg vegglistaverk máluð á veggi Háaleitisskóla á Ásbrú, píanógangbraut við Krossmóa og síðast en ekki síst smíðuðu meðlimir hópsins útsýnis smáhýsi á Bakkalág, stóra túninu milli Hafnargötu og Ægisgötu.

Sæluhús með útsýni til sjávar

„Við köllum þetta sæluhús þar sem fólk getur sest inn og slappað af, hvort sem það er eftir hlaup, hjólahring eða bara göngu. Í húsunum er plexigler sem snýr út að sjónum til að njóta útsýnis. Þetta er svona skemmtilegur hvíldarstaður þar sem hægt er að njóta útsýnisins og fá sér kaffi eða hvað sem er ef fólk vill,“ segir Hildur Hlíf og bætir því við að nú hefur verið settur upp hátalari við eitt sæluhúsið sem hægt er að tengjast í gegnum blátönn (Bluetooth) og skella tónlist á eða töluðu máli. 

„Markmiðið var líka að hugmyndirnar myndu vera framkvæmanlegar og nýtast eins og raunin hefur orðið á,“ segir Hildur Hlíf sem er háskólanemi í sálfræði og býr í bítlabænum. Félagi hennar í verkefnisstjórninni, Reykvíkingurinn Ingvi Hrafn Laxdal Victorsson, Krummi, hefur fallið fyrir Reykjanesbæ og er að flytja í bæinn. Það var ekki eitt af markmiðum hópsins en er ánægjulegt engu að síður.