Sunnudagur 19. júní 2022 kl. 11:53

Rótarýfólk snyrti aldingarð æskunnar

Allt frá árinu 2019 hafa Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands og Reykjanesbær haft samstarf um „Aldingarð æskunnar“ við skrúðgarðinn í Keflavík. Garðurinn var formlega stofnaður í byrjun sumars 2019 og síðan þá hefur garðplöntum og yndisgróðri verið plantað í þennan garð. Í aldingarðinum er m.a. markmið að planta ávaxtatrjám og berjarunnum, m.a. í samstarfi við leikskóla.

Einn af forvígismönnum Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélags Íslands er Konráð Lúðvíksson. Konráð er líka félagi í Rótarýklúbbi Keflavíkur og þar hefur hann virkjað klúbbfélaga sína til gróðursetningar og umhirðu gróðurreita. Þannig hafa Rótarýfélagar séð um umhirðu í Aldingarði æskunnar, hreinsað í burtu illgresi, sett niður lauka og plantað sumarplöntum.

Í síðustu viku var gert hreinsunarátak í garðinum, kerra fyllt af illgresi og gróðurleifum og litskrúðugum sumarblómum var plantað út en það er markmið félaga í Rótarýklúbbnum að Aldingarður æskunnar sé orðinn snyrtilegur og tilbúinn að taka á móti gestum á þjóðhátíðardaginn, 17. júní.

Á meðan Rótarýfólkið var á hnjánum í Aldingarði æskunnar var formaður Rótarýklúbbs Keflavíkur hins vegar heima við í „Hallargarðinum“ þar sem hann undirbjó grillveislu fyrir Rótarýfélaga sína og maka þeirra. Rótarýformaðurinn Hannes Friðriksson og Þórunn Benediktsdóttir eiginkona hans eiga einn af fallegri görðum bæjarins við Freyjuvelli í Keflavík. Þangað fjölmennti Rótraýfólkið svo og fagnaði góðu dagsverki.

Nánar var fjallað um Aldingarð æskunnar og garðinn hjá formanninum í Suðurnesjamagasíni og má sjá myndskeiðið í spilarnum hér að neðan.