Miðvikudagur 16. júní 2021 kl. 17:51

Risastór áform í laxeldi við Reykjanesvirkjun

Samherji fiskeldi áformar að byggja upp allt að 40.000 tonna landeldi á laxi í þremur áföngum á næstu 11 árum. Landeldisstöðin verður staðsett við Reykjanesvirkjun og mun samanstanda af seiðastöð, áframeldisstöð og frumvinnsluhúsi ásamt þjónustubyggingum. Heildarfjárfesting er áætluð ríflega 45 milljarðar króna en stjórn Samherja hefur ákveðið að leggja til fjármagn til fyrsta áfanga verkefnisins. Ráðgert er að leita til fleiri fjárfesta þegar kemur að frekari stækkun landeldisins. Landeldisáformin í Auðlindagarðinum teljast stór í samanburði við önnur landeldisverkefni sem nú eru í undirbúningi á alþjóðavísu. Fjölmörg störf verða til á framkvæmdatímanum og á annað hundrað störf við landeldið þegar vinnsla á afurðum hefst.

Samherji fiskeldi ehf. hefur gert samninga við HS Orku um uppbyggingu laxeldis á landi í Auðlindagarðinum við Reykjanesvirkjun. Markmiðið með landeldinu er að framleiða heilnæma gæða vöru með lágu vistspori.

Félagið hefur tryggt sér aðgang að sjó og raforku til að framleiða allt að 40 þúsund tonn af laxi á landi árlega auk þess sem nýttur verður ylsjór sem er affall frá kælingu Reykjanesvirkjunar. Þá hefur Samherji fiskeldi samið við landeigendur vegna uppbyggingarinnar.

Í spilaranum hér að ofan er viðtal við Jón Kjartan Jónsson, framkvæmdastjóra Samherja fiskeldis um verkefnið, sem var kynnt formlega í dag á fundi í Hljómahöll í Reykjanesbæ.