Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 3. mars 2020 kl. 07:32

Nýtt reiknilíkan fyrir heilsugæsluna

Heilbrigðisráðherra segir að fjárframlög til HSS hafi ekki verið í takti við íbúafjölgun á svæðinu

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra segir að fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja hafa aukist um 20% á föstu verðlagi frá árinu 2014 en aukningin hafi þó ekki verið í takti við fordæmalausa íbúafjölgun á svæðinu. Úttektir Embættis landlæknis sýna að þjónusta heilsugæslu HSS hafi verið ófullnægjandi. Ráðherra segir að unnið sé að gerð nýs reiknilíkans fyrir heilsugæsluna.

Stofnunin hefur verið að taka á málum eftir ábendingar frá embætti landlæknis. Svandís segir að síðan hafi verið framför í mönnun og þjónustu og allar tölur séu jákvæðar á milli mælinga. „Við höldum áfram að fylgjast með. Það eru miklar áskoranir á Suðurnesjum vegna íbúasamsetningar og álags vegna ferðmanna.“

Ráðherra segir að á næsta ári ætti nýtt reiknilíkan vegna heilsugæslunnar að endurspegla þjónustuna og þjónustuþörfina.

Í líkaninu er haldið utan um skráningu og fleiri þætti eins og sjúkdómaþyngd og félagslega samsetningu svæðisins og segir hún að þetta hafi gengið vel og sé hvetjandik þar sem þetta hefur verið reynt á höfuðborgarsvæðinu. Nú sé verið að reyna nýja líkanið úti á landi.

Svandís segir að margt sé ólíkt á Suðurnesjum og víða annars staðar úti á landi t.d. á dreifbýlli svæðum. „Við erum að prufukeyra fyrir allt landið og vonandi verðum við komin með skýrt módel sem passar þá fyrir íbúana og þjónustuna sem verið er að veita frá og með næstu áramótum.“

Hún leggur áherslu á að á HSS sé grunnþjónustu sinnt, heilsugæslu og bráðaþjónustu. Ekki megi missa sjónar á því.

Í nýlegri samantekt forstjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja kemur fram að grípa þurfi til aðgera til að efla heilsugæsluna án tafar. Húsnæðið sé löngu sprungið en það er um 700 fermetrar og þjónusta yfir tuttugu þúsund skjólstæðinga. Þá sé nauðsynlegt að innrétta nýja slysa- og bráðadeild með fullnægjandi tækjabúnaði og sjúkrabílaaðgengi hið fyrsta.

Í samantekt forstjórans kemur fram að Lýðheilsuvísar sýni að hvergi á landinu sé meiri þörf fyrir öflugri heilsugæslu og heilsueflingu en á Suðurnesjum. Þá sé dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma hvergi hærri en á Suðurnesjum (2018).

Svandís og Kjartan Már bæjarstjóri Reykjanesbæjar undirrituðu nýlega samning um 60 rúma hjúkrunarheimili.