Fimmtudagur 29. september 2022 kl. 19:30

Með Ása á ferð um kjördæmið og stærri Reykjanesvirkjun í Suðurnesjamagasíni

Tíu milljarða króna framkvæmdir við Reykjanesvirkjun eru komnar vel á veg. Prófanir á búnaði eru að hefjast og gert er ráð fyrir að aflmeiri virkjun verði tekin í gagnið strax á nýju ári. Í Suðurnesjamagasíni er rætt við Tómas Sigurðsson, forstjóra HS Orku, um Reykjanesvirkjun, Auðlindagarðinn og einnig hvaða áhrif jarðhræringnar og eldgos eru að hafa á rekstur orkuversins í Svartsengi.

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður í Suðurkjördæmi, er duglegur að ferðast um kjördæmið og eiga fundi með fólki. Blaðamaður Víkurfrétta fór sem farþegi með Ásmundi í ferð síðasta föstudag. Fyrsti hluti af þremur úr ferðalaginu er sýndur í þætti vikunnar. Í næstu viku verður sýnt meira frá ferðalaginu. Í framhaldinu verður svo viðtalið sett í heild sinni með ýmsu aukaefni á miðla Víkurfrétta.

Þáttur vikunnar endar svo á tónbroti frá tónleikum Júlíusar Guðmundssonar, handhafa Súlunnar — menningarverðlauna Reykjanesbæjar. Hann var með tónleika í Frumleikhúsinu í síðustu viku.

Suðurnesjamagasín er á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöldum kl. 19:30.