Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 19. september 2019 kl. 20:30

Ljósakrónur, flugumferðarljós og björgunaræfing í Suðurnesjamagasíni vikunnar

Ljós koma talsvert við sögu í Suðurnesjamagasíni, sem er á dagskrá Hringbrautar í kvöld, fimmtudagskvöld kl. 20:30. Lýsing á Keflavíkurflugvelli er til umfjöllunar í þættinum. Aldargamlar ljósakrónur Keflavíkurkirkju hafa einnig gengið í endurnýjun lífdaga og sagt er frá því verkefni í þætti kvöldsins.

Sjónvarpsmenn Suðurnesjamagasíns fóru á æfingu með björgunarsveitum og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar í vikunni og þá er boðið upp á létta yfirferð á tíðindum frá Suðurnesjum.

LJÓSIN Í KIRKJUNNI
Ljósakrónur Keflavíkurkirkju hafa gengið í endurnýjun lífdaga. Þær eru nú eins og nýjar eftir miklar endurbætur sem unnar hafa verið á þeim í sumar m.a. með aðkomu skjólstæðinga Hæfingarstöðvarinnar í Reykjanesbæ. Þeim voru færðar sérstakar þakkir og veittur styrkur upp á tæpa hálfa milljón króna við ljósamessu í Keflavíkurkirkju á sunnudagskvöld. Það var á þorranum sem Erla Guðmundsdóttir sóknarprestur Keflavíkurkirkju fékk Hjörleif Stefánsson rafvirkja til að taka að sér endurnýjun á ljósakrónum kirkjunnar. Þær höfðu verið til mikilla vandræða síðustu misseri og perur voru að springa ótt og títt. Komið með okkur í Keflavíkurkirkju. Rætt er við þau Erlu, Hjörleif og Reyni Ólafsson um ljósin í kirkjunni

NÝ FLUGUMFERÐARLJÓS
Ný stöðvunarljós, svokallaðar stöðvunarslár voru teknar í notkun á Keflavíkurflugvelli á dögunum. Stöðvunarslárnar eru staðsettar á akbraut við flugbrautir á Keflavíkurflugvelli. Ljósin eru mikilvægur þáttur í að fyrirbyggja brautarátroðning en þau gilda bæði fyrir loftför og ökutæki á flugvallarsvæðinu. Rætt er við Þröst V. Söring framkvæmdastjóra Keflavíkurflugvallar í þættinum

Á BJÖRGUNARÆFINGU
Við fáum reglulega fréttir af björgunarstörfum áhafna á þyrlum Landhelgisgæslunnar og björgunarskipum Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Þyrlu- og björgunarsveitarfólkið stundar þrotlausar æfingar þar sem réttu handtökin eru æfð aftur og aftur. Suðurnesjamagasín skellti sér á sjóinn með björgunarskipinu Hannesi Þ Hafstein. Farið var út frá Sandgerði til fundar við þyrluna Líf.

FRÉTTIR FRÁ SUÐURNESJUM
Þáttur vikunnar endar svo á veglegum fréttapakka frá Suðurnesjum þar sem greint er frá nýjustu tíðindum af svæðinu.