Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 19. mars 2021 kl. 15:39

Katrín forsætisráðherra í Suðurnesjaheimsókn

„Stóra málið á Suðurnesjum er auðvitað atvinnuástandið. Ég ræddi það á fundi með bæjarstjórnum Reykjanesbæjar og Grindavíkur. Við vitum að það eru bjartari tímar framundan en ríkisvaldið hefur verið með margþættar aðgerðir til stuðnings á Suðurnesjum og ég fékk meðal annars að vita um stöðuna í mörgum þeirra í heimsókn minni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem heimsótti Reykjanesbæ og Grindavík síðasta föstudag. Tilefni heimsóknarinnar var staðan í atvinnumálum og jarðhræringar.

Katrín segir að aðgerðir ríkisins í atvinnumálum hafi falist í vinnumarkaðsaðgerðum, fjárfestingum og menntatækifærum en hún heimsótti tvo skóla í ferðinni. Hún hóf heimsókn sína í Stapaskóla í Reykjanesbæ en hann er nýjasti og tæknivæddasti skóli landsins, svo heimsótti hún líka Keili á Ásbrú. 

„Ég hef haft taugar til Keilis og fylgst með honum allt frá því ég var menntamálaráðherra. Það er mjög spennandi starf þar. Skólinn er óhræddur við að hugsa út fyrir boxið. Ég hef mikla trú á starfinu og þeirra aðferðum. Það var líka gaman að koma í Stapaskóla. Þetta er glæsilegur skóli og áhugavert að sjá starfið þar og græjurnar en maður skynjaði líka að börnunum líður vel í skólanum. Þau spurðu mig mörg spjörunum úr, til dæmis um heilbrigðiskerfi, fótbolta og jarðhræringar. Það var áhugavert sem og starfið í skólanum og greinilegt að þar er fagfólk að stýra málum með góða og framsýna skólastefnu.“

Katrín segir að vandi Suðurnesjamanna tengist ferðaþjónustunni og fluginu, stórum greinum á Suðurnesjum, en segir ástæðu til að horfa með bjartsýni fram á veginn þó ástandið sé erfitt núna. „Við höfum náð góðum árangri í baráttunni við veiruna og ég hef trú á því að erlendir ferðamenn muni í miklum mæli horfa til Íslands þegar þeir fara aftur af stað.“ 

Í heimsókn Katrínar til Grindavíkur voru jarðhræringar og tengd mál rædd. „Þetta er auðvitað fylgifiskur þess að búa á Íslandi. Við skiljum það vel að Grindvíkingar séu orðnir langþreyttir á ástandinu. Þeir hafa verið ótrúlega æðrulausir í þessu máli. Ég fundaði með bæjarstjórn og bæjaryfirvöld hafa reynt að passa upp á upplýsingagjöf og viðbragðsáætlun. Þetta rafmagnsleysi stóran hluta föstudags var auðvitað mjög óheppilegt og ekki viðunandi,“ sagði Katrín Jakobsdóttir.

Sjá myndasyrpu frá heimsókninni hér að neðan og einnig viðtal við Katrínu.

Katrín ræddi við nemendur í Stapaskóla og á neðri myndinni er hún með forráðamönnum Sambands sveitarfélaga, Berglindi Kristinsdóttur og Loga Gunnarssyni. 

Katrín forsætisráðherra í Suðurnesjaheimsókn