Laugardagur 11. september 2021 kl. 08:31

Ísland hjólað horn í horn


Félagarnir Arngrímur Guðmundsson, Guðbergur Reynisson og Sævar Baldursson eru í ört vaxandi hópi fjórhjólaeigenda á Suðurnesjum. Nýverið tókust þeir á við áskorun um að fara horn í horn, frá Reykjanesi að Fonti á Langanesi, á innan við sólarhring. Ferðalagið tókust þeir á hendur undir merkjum Melrakka, sem er ferðaklúbbur fjórhjólaeigenda í Akstursíþróttafélagi Suðurnesja. Skemmst er frá því að segja að þeim tókst ætlunarverkið og fóru horn í horn á tuttugu og einni klukkustund og fimmtíu mínútum.

Ferðafélagarnir Arngrímur, Sævar og Guðbergur.

 

„Við höfðum verið með þennan draum í fimmtán ár að fara frá Reykjanestá og út á Langanestá á innan við sólarhring. Ég man það þegar ég var í hestunum í gamla daga þá voru menn að fara þessa leið á þrjátíu dögum, þannig að á fjórhjóli ætti að vera hægt að fara þetta á innan við sólarhring. Við höfðum hugsað þetta í mörg ár og árið 2019 fórum við smá hópur þessa leið og tókum okkur þrjá og hálfan sólarhring í verkið. Í fyrra ákváðum við þetta svo og byrjuðum að skipuleggja en það er mikil skipulagsvinna á bak við þetta. Við erum í stærri hóp sem kallar sig Melrakka og er að ferðast um landið með þessum ferðamáta og höfum verið að fara þrjátíu til fjörutíu saman í ferðalög, stórar ferðir sem kalla á mikið skipulag. Við erum því orðnir nokkuð brattir og vitum hvað þarf að gera ef eitthvað bilar eða ef það verður slys. Með því að byggja á fyrri reynslu þá teiknuðum við þessa ferð upp,“ segir Guðbergur Reynisson, einn leiðangursmanna.

Á brúnni yfir Skaftá. Hún hefur verið í fréttum þessarar viku vegna Skaftárhlaupa.

Malbikið er óvinur

Ferðalagið þvert yfir landið, eða horn í horn, hófst við litla vitann á Reykjanesi og síðan var farið eftir slóðum og línuvegir voru eknir og þeim félögum tókst að þvera landið án þess að fara mikið á malbik. „Malbikið er versti óvinur fjórhjólsins, því dekkin eyðast svo hratt upp á því,“ segir Guðbergur.

Ferðalagið gekk ekki alveg áfallalaust fyrir sig. Bilunar varð vart í fjórhjólinu sem Sævar Baldursson ók og því þurfti hann að fá sent hjól til skiptana á Laugarvatn. Það tafði ferðalagið um tvær klukkustundir. „Ég er sá sem varð valdur að því að við vorum um 22 tíma en ekki tuttugu. Það bilaði hjá mér hjólið. Við urðum varir við bilunina og sáum að við gátum ekki gert við hana. Ég fékk aðeins skömm í hattinn fyrir að hafa tafið ferðalagið,“ segir Sævar.

Á norðausturlandi lentu þeir svo í svartaþoku þannig að þar var ákveðið að stytta sér leið og fara á malbiki á Vopnafjörð og þaðan með ströndinni að Langanesi. Þokan var kannski það eina sem ekki var gert ráð fyrir í ferðaplaninu því þegar komið var á norðausturhornið var líka farið að rökkva

Á leiðinni á Langanes þá fóru drengirnir að velta því fyrir sér hvaða leið þeir ættu að fara heim. Þá var ákveðið að fara á Hraunhafnartanga, sem er nyrsti tangi landsins, aka sem leið liggur yfir landið og ekki stoppa fyrr en komið var á Kötlutanga, sem er syðsti tangi landsins. „Það var mun auðveldara verkefni og tók um hálfan sólarhring,“ segir Guðbergur.

Lagt í'ann frá Nýjadal á Sprengisandi.

Ljúft að komast á áfangastað

„Það var ljúft að komast á áfangastað þegar við komum á Font. Þetta er langt ferðalag og reynir á menn, bæði andlega og líkamlega. Það var mikið skipulag fyrir ferðina og hluti af því að var að komast þetta örugglega, aka varlega og vera í góðum samskiptum. Við vorum allir tengdir saman í fjarskiptum í ferðinni og gátum því heyrt hver í öðrum þegar við vorum á ferðinni. Það varð spennufall þegar við komumst á leiðarenda enda búnir að vera rúman sólarhring á hjólunum frá því við lögðum upp í ferðina frá upphafsstað á Reykjanesi og þar til við komumst á hvíldarstað fyrir norðan eftir að hafa farið út á Langanes,“ segir Arngrímur Guðmundsson.

Þeir félagar segja ferðalagið vera mikið mál, því leiðirnar séu ekki allar dans á rósum. Það þurfi að fara yfir stórar ár á leiðinni, eins og Hagakvísl og Nýjadalsá á miðjum Sprengisandi. Þær geta verið í allskonar ásigkomulagi og mjög skæðar. Sprengisandur getur líka verið erfiður yfirferðar, sprunginn eða nánast ófær. Hann sé þó bestur svona seint um sumar þegar búið er að keyra hann mikið. Svo eru veður allskonar. Það getur snjóað á hálendinu í júní og júlí. Hálendið opnar ekki vegna bleytu fyrr en um miðjan júlí og þá er þetta lítill gluggi sem menn hafa vegna birtu.

Guðbergur segir að þeir félagar hafi verið rosalega heppnir í þessari ferð. Þeir hafi náð að halda góðum hraða og þegar ekið sé í sólarhring þá þurfi hausinn að vera rétt skrúfaður á. Það þurfi að passa að vera ekki að keyra of hratt miðað við aðstæður, því þá sé hætta á slysum og bilunum í búnaði.

Hjólin á áfangastað við Font á Langanesi eða 21:50 klukkustundum eftir að lagt var upp frá Reykjanesi.

Huga vel að öryggisatriðum

Arngrímur er lögreglumaðurinn í hópnum og það var grínast með það í hópnum þeirra á fésbókinni að lögreglan væri að elta þá félaga yfir landið. Arngrímur var reyndar oft bæði fremstur eða í miðjum hóp en hann segir að það skipti máli að fara varlega og það hafi verið lagt upp með það fyrir ferðina. Það þurfi að huga vel að öryggisatriðum og að vera í góðum samskiptum. „Undirbúningur er lykilatriði og að hafa plön ef eitthvað kemur upp á á leiðinni,“ segir Arngrímur.

Þeir félagar lentu ekki bara í töf með bilað fjórhjól á Laugarvatni, því þeim að óvörum óku þeir fram á rafmagnsbíl á miðjum Sprengisandi sem hafði skemmt hjólbarða. Það ævintýri tafði þá um klukkustund við að reyna að aðstoða þann ökumann sem vildi freista þess að komast yfir hálendið á rafmagnsbílnum.

Sævar Baldursson er þaulvanur atvinnubílstjóri og þekkir langar vökur, hann kann einnig trixin þegar kemur að því að fá sér kríu. „Þegar ég sá Bakkafjarðarskiltið sagði ég strákunum að ég þyrfti aðeins að stoppa. Þegar þeir sneru við og fundu mig hrjótandi úti í kanti, þá leist þeim ekkert á þetta,“ segir Sævar og hlær en þarna náði hann sér í tíu mínútna svefn og varð stálsleginn í kjölfarið.

Forréttindi

„Þetta sport sem við erum í er ákveðin forréttindi. Við erum að ferðast um hálendið og sjá okkar fallega land og öll þau litbrigði sem eru í landinu. Við eigum auðveldara með, og erum kannski fljótari, að fara yfir stór svæði og sjá meira en þeir sem eru bara að skjótast yfir Sprengisand. Við förum oft hliðarleiðir og skoðum falleg græn svæði eða andstæður í landslaginu, þannig að það eru forréttindi að fá að vera í þessu sporti,“ segir Arngrímur.

Þeir félagar eru duglegir að stunda sportið og hafa að meðaltali farið eina ferð í mánuði þau ár sem þeir hafa verið í félagsskap Melrakka. Það sé auðvelt að stunda fjórhjólasportið allt árið og hópurinn sé alltaf að stækka. Þannig segir Guðbergur að bara í Reykjanesbæ séu í dag um hundrað fjórhjól og alltaf sé verið að skipuleggja fleiri ferðir. Fyrr í sumar fóru á milli þrjátíu og fjörutíu manna hópur á vegum Melrakka í ferð um Vestfirði, 44 fóru í hringferð um Langjökul fyrir um mánuði, Fjallabak hefur verið skoðað og að sögn þeirra félaga er Ísland bara geggjað land til að stunda þetta sport.

Næsta stóra ferð frá austasta punkti til þess vestasta

Eitt af næstu verkefnum hópsins verður að fara að Lóni við Seyðisfjörð, aka landið þvert og stoppa við Látrabjarg – sem sagt fara frá austasta punkti landsins og að þeim vestasta. „Þetta gerum við næsta sumar. Það er hins vegar vandamál að landið er of lítið og sumarið of stutt,“ segir Guðbergur og hlær.