Sunnudagur 4. febrúar 2018 kl. 09:00

Hvað á að byggja upp á Keflavíkurtúninu?

- Sjónvarpsinnslag um verndarsvæði í byggð

Er ástæða til að vernda ákveðin svæði í Reykjanesbæ vegna menningarsögulegs mikilvægis? 
 
Í júní 2016 gaf forsætisráðuneytið út reglugerð um verndarsvæði í byggð. Með því er átt við byggð innan afmarkaðs svæðis sem nýtur sérstakrar verndar samkvæmt ákvörðun ráðherra. 
 
Starfshópur vinnur nú að tillögu um að elsti hluti Keflavíkur verði lýstur verndarsvæði í byggð. Markmiðið með því er að vernda og hlúa að sögulegum forsendum bæjarins. 
 
Sögulegt umhverfi hefur mikið félagslegt og efnahagslegt gildi fyrir sveitarfélög, eykur aðdráttarafl hverfa og bæjarhluta og eykur þannig lífsgæði. Verndarsvæði í byggð verður iðulega eftirsóttur áfangastaður ferðamanna og þar skapast ný tækifæri.
 
Á sýningu í Duus Safnahúsum, sem ber yfirskriftina Reykjanesbær – Verndarsvæði í byggð? gefst íbúum kostur á að láta rödd sína heyrast og koma með tillögur um framtíðarásýnd gamla bæjarins sem verða grunnur að umsókn Reykjanesbæjar um verndarsvæði í byggð.
 
Fjölmargir hafa lagt leið sína á sýninguna og skilið þar eftir hugmyndir sem síðar verður unnið úr. Meðal annars hafa grunnskólanemendur tekið þátt í verkefnum og mótað sínar hugmyndir um hvað þeir vilja sjá á Keflavíkurtúninu framan við Duus-húsin. 
 
Sýningin Reykjanesbær - Verndarsvæði í byggð? stendur til 15. apríl 2018 og er opin alla daga frá kl. 12-17. Ókeypis aðgangur er á sýninguna.