Fimmtudagur 18. mars 2021 kl. 21:00

Hressandi Suðurnesjamagasín á nýjum tíma

Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is á fimmtudagskvöldum. Þátturinn hefur fengið nýjan útsendingartíma og er núna frumsýndur kl. 21:00.

Í þætti vikunnar sláumst við í för með forsætisráðherra á ferðalagi hennar um Suðurnes á dögunum. Þar kynnti ráðherra sér ýmislegt í atvinnulífi, menntun og mannlífi á svæðinu. Við förum einnig í Duus Safnahús og skoðum bátaflota Gríms Karlssonar. Sýningin á flotanum hefur gengið í endurnýjun lífdaga og þykir Byggðasafni Reykjanesbæjar hafa tekist vel til með uppsetningu nýju sýningarinnar. Við ræðum við safnstjórann og heyrum einnig stuttlega í Hafsteini Guðnasyni fyrrverandi skipstjóra sem byrjaði ungur til sjós. Lengri útgáfa af viðtalinu við Hafstein verður aðgengileg á vf.is um helgina.

Í síðari hluta þáttarins er rætt við Önnu Steinunni Jónasdóttur hjá Kadeco um þróunaráætlun sem er í vinnuslu hjá félaginu en nú er óskað eftir svörum frá íbúum á Suðurnesjum, sem eru næstu nágrannar Keflavíkurflugvallar. Þá heyrum við einnig stuttlega í Arnóri Ingva Traustasyni sem er kominn í bandaríska knattspyrnu. Lengri útgáfa af því viðtali er einnig væntanleg á vef Víkurfrétta.
Munið að stilla á Hringbraut kl. 21:00 á fimmtudagskvöldum eða horfið á þáttinn hér á vf.is.