Fimmtudagur 18. ágúst 2022 kl. 19:01

Hjóluðu á handafli að eldgosinu – Suðurnesjamagasín kl. 21:30 í kvöld

Suðurnesjamagasín er á dagskrá öll fimmtudagskvöld kl. 19:30. Reyndar er undantekning á því í kvöld þar sem útsending frá Lengjudeildinni í knattspyrnu stendur yfir á þessum tíma og því er Suðurnesjamagasín frumsýnt kl. 21:30 í kvöld.

Þeir Arnar Helgi Lárusson og Jóhann Rúnar Kristjánsson eiga það sameiginlegt að hafa lamast í mótorhjólaslysum. Þeir hafa ekki látið lömun stöðva sig og eru báðir virkir samfélagsþegnar og taka sér ýmislegt fyrir hendur – í orðsins fyllstu merkingu. Á dögunum hjóluðu þeir að gosstöðvunum á sérútbúnum fjallahjólum sem eru knúin áfram af handafli, auk þess að vera með rafknúinn hjálparmótor. Þeir segja áhorfendum Suðurnesjamagasíns frá ferðalaginu upp að gosinu og frá því frelsi sem nýju fjallahjólin eru að veita lömuðum og fötluðum.

Í þættinum förum við einnig til Grindavíkur og hittum fyrir unga kylfinga sem æfa golfíþróttina með golfkennara sínum á gamla rollutúninu. Ekki langt þar frá hittum við einnig aðra Grindvíkinga og ræddum við þá um eldgosið og áhrif þess á lífið í Grindavík.

Þátturinn endar svo á stuttu broti frá tónleikum sem haldnir voru í skógarrjóðri við Háabjalla. Þar komu fram fjölmargir tónlistarmenn og konur og þar á meðal var KK sem endar þáttinn að þessu sinni.