Mánudagur 22. mars 2021 kl. 19:00

Geldingadalir heitasti staður landsins

Geldingadalir við Grindavík er heitasti staður landsins og við vitum öll út af hverju en þúsundir fóru að gosstöðvunum um helgina. Aðgangi að þeim var lokað í morgun eftir að nokkrir höfðu lent í miklum vandræðum í gærkvöldi og nótt. Á annað hundrað björgunarsveitarmenn leituðu fólks á gosstöðvunum í nótt

Það er óhætt að segja að gosæði hafi runnið á landsmenn og margir reimdu á sig gönguskóna, þyrlur fluttu einnig mikinn fjölda fólks í dalinn einhverjir fóru á farartækjum eins og fjórhjólum.

Aðstæður voru lengst af góðar og fólk naut þess að berja gosið augum og tók flottar myndir. Sumir fóru reyndar nálægt og einhverjir of nálægt.

Bent var á að það gæti verið hættulegt en þau skilaboð voru ekki allir tilbúnir að hlusta á.

Það var svo á sunnudagskvöld og aðfaranótt mánudags sem alvarlegt ástand skapaðist eftir að veður hafði versnað og margir lentu í miklum hrakningum á leið sinni til baka og þurftu á aðstoð björgunarsveitarfólks að halda.

Fjöldahjálparstöð var opnuð í Grindavík og um fjörutíu manns voru fluttir þangað áður en þeir gátu haldið áfram til síns heima.

Í nótt var óttast um þýskan ferðamann sem hann hafði farið aðra leið til Grindavíkur og skilið bílinn eftir þar sem hann hóf göngu sína. Þyrla Landhelgisgæslunnar var meðal annars notuð við leit að Þjóðverjanum sem fékk næturgistingu í Grindavík en hann lét svo vita af sér í morgun.

Í meðfylgjandi innslagi er rætt við Hjálmar Hallgrímsson lögreglumann í Grindavík og Ársæl Þór Kristjánsson sjómann sem lagði upp í tæplega sjö klukkustunda göngu í morgun til að berja eldgosið augum.