Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 23. desember 2020 kl. 15:34

Fimm ára Njarðvíkingur fer á kostum - kann utanbókar hlutverk allra jólasveinana

Jólafur Björn Jónsson er fimm ára jóladrengur úr Njarðvík en hann fer á kostum í jólakveðju fjölskyldu sinnar sem hún setti á Facebook.

Jólafur heitir Ólafur Björn og er sonur þeirra Hilmu H. Sigurðardóttur og Jóns Björns Ólafssonar. Ungi drengurinn hefur frá unga aldri haft mikið dálæti á jólasveinunum þrettán. Hann lærði röðina á þeim, nöfn þeirra og hvað þeir gera - þegar hann var tveggja ára eftir að foreldar hans lásu fyrir hann úr bók Jóhannesar úr Kötlum um jólasveinana. Hann fór með rulluna um alla jólasveinana fyrir íbúa á Hlévangi í fyrra, þá aðeins 4 ára. Nú fór okkar maður með rulluna alla utanbókar á alnetinu sem var jólakveðja frá fjölskyldunni. Systur hans, Eyja og Rósa voru aðstoðarkonur hans í flutningnum sem foreldrar hans tóku upp í Safnahúsum Duus í Reykjanesbæ. Í lok myndbandsins er jólalag í flutningi sönghópsins Vox Felix.