Þriðjudagur 11. febrúar 2020 kl. 09:34

Enginn draumur of stór

Filoreta Ozmani hvetur unga innflytjendur til þátttöku í íþróttum. Foreldarar hennar komu sem flóttamenn frá Kosovo.

Filoreta Ozmani hvetur unga innflytjendur til þátttöku í íþróttum. Foreldarar hennar komu sem flóttamenn frá Kosovo.

Filoreta, hvernig komst þú til Reykjanesbæjar?

Ég fæddist árið 2003 og við vorum fyrst búsett á Akureyri. Mamma og pabbi komu hingað til landsins fyrir 25 árum sem flóttamenn þegar stríðið byrjaði í Júgóslavíu. Við komum frá Kosavo. Um 2009–2010 fluttum við til Njarðvíkur og erum enn búsett hér.

Hvernig hefur það verið?

Það var svolítil breyting. Fyrstu sex árin voru fyrir norðan og svo komum við hingað, nýir vinir og allt það en ekkert eitthvað sem mér finnst neikvætt.

Fórstu í leikskóla hér eða byrjaðir þú strax í grunnskóla?

Ég byrjaði hér í fyrsta bekk í Njarðvíkurskóla.

Innan um alla grænu Njarðvíkingana?

Já, já. Um leið og maður kom þá var það bara körfubolti, fótbolti, íþróttir. Maður fann strax fyrir þessu.

Hvernig gekk þér að eignast vini hérna?

Mjög vel. Það tóku manni allir með opnum örmum.

Þú hefur ekkert fundið fyrir því í æsku að þú værir innflytjandi?

Nei, alls ekki. Ég hef ekki fundið fyrir því. Þegar maður tengist vinum þá koma auðvitað smá djók inn á milli en það var ekkert eitthvað sem sat í mér. Ég fann alls ekki fyrir því.

Ertu búin að skoða þessa sögu, með stríðið og annað?

Ég hef náttúrlega lesið um það og maður lærir um það í samfélagsfræði í skólanum en svo hafa mamma og pabbi sagt mér mjög margt. Það byrjaði um 1994 minnir mig og þá voru auðvitað flestir að reyna að koma sér úr landi og setjast að út um allan heim.

En þið eruð ánægð að hafa komist til Íslands?

Mjög.

Hvernig gekk skólagangan? Var gaman í Njarðvíkurskóla?

Já, auðvitað. Ég kom hingað í fyrsta bekk og eignaðist strax vini og vinkonur. Síðan hélt það bara áfram upp í tíunda bekk og varð bara betra og betra. Ég byrjaði svo í íþróttum, í körfubolta, í þriðja bekk. Ég tók samt smá pásu á milli en byrjaði samt aftur og hélt áfram þangað til í tíunda bekk en þá þurfti ég að hætta vegna nárameiðsla sem voru farin að trufla mig mjög mikið í íþróttinni. Ég myndi segja að það hafi verið eitthvað sem, kannski ekki beint bjargaði mér, en hjálpaði mér mjög mikið, einmitt það að komast í íþróttirnar. Þá tengdist maður vinum enn betur og var alltaf með þeim. Þetta var stór hluti sem bættist við.

Þannig að íþróttirnar hjálpuðu þér að eignast vini og aðlagast?

Já, akkúrat. Núna í þeim framhaldsskóla sem ég er í, Verzló, þá var ég fyrst: „Er einhver sem ég mun þekkja?,“ en síðan keppti ég á móti hinni og þessari í körfunni. Þetta er svo vítt og hjálpar manni á ýmsan hátt.

Ungir innflytjendur á Íslandi, hvað þarf að gera fyrir þau? Nú ert þú að kynna þetta með Maciek Baginski, þar sem þið eruð að kynna fyrir ungmennum í Reykjanesbæ hvað þetta sé mikilvægt og auðveldar ungmennum að ná tengingu, eignast vini og annað. Ertu með einhver ráð fyrir unga fólkið?

Fyrir nokkrum dögum þegar við vorum að kynna þetta þá reyndi ég að taka svona persónulegar sögur og ná athygli krakkanna. En það sem ég myndi segja að stærsta vandamálið væri eru kannski foreldrarnir sem eru nýflutt hingað og kannski ekki beint að pæla í því að senda krakkana strax í íþróttir. Þau eru kannski bara að pæla í því að koma sér í gang. Það er líka margt sem fólk veit ekki, eins og til dæmis um hvatagreiðslur. Það eru margir sem vita ekki að maður fær borgað til baka ef barnið manns er í íþróttum. Það eru líka alltaf styrkir sem hægt er að óska eftir ef það vantar hjálp, ef foreldrar geta ekki borgað. Það er hægt að óska eftir hjálp en það eru ekkert allir sem vita af því.

En varðandi skólann, þar sem þú þekkir nánast varla annað en að vera í skóla hér á Íslandi, þá gæti ég ekkert spurt þig um það hvernig það væri að vera í Kósovó. Þú bara elst upp við Ísland og allt eðlilegt fyrir þér.

Ég hef aldrei fundið fyrir neinum fordómum, ég hef aldrei fengið neitt svoleiðis. Ef ég væri alltaf að fá einhverja fordóma þá væri ég náttúrlega ekkert í kringum það fólk.

Eru Íslendingar skilningsríkir?

Já, þetta er líka bara geggjaður bær, geggjaðir krakkar.

Þú talar íslensku eins og þú sért Íslendingur. En tungumálið frá Kósovó, talarðu það?

Já, mamma og pabbi leggja mikla áherslu á það. Við tölum albönsku. Það er móðurmálið í Albaníu og Kósovó. Mamma og pabbi hafa alltaf lagt mikla áherslu á að tala albönsku heima en auðvitað inn á milli tölum við íslensku. Frá því ég var lítil þá höfum við talað mjög litla íslensku heima til að halda upp á móðurmálið en utan heimilisins þá er það bara íslenskan.

Eru foreldrar þínir farnir að tala þokkalega íslensku?

Já, mamma og pabbi eru náttúrlega búin að vera hérna í 25 ár. Maður heyrir væntanlega smá á þeim þegar kemur að framburðinum, smá hreimur og málfræðin. En það er kannski miklu erfiðara fyrir þau að tala tungumálið.

Hefurðu farið til Kósovó?

Já, við förum nánast á hverju einasta ári. Þar er einmitt ennþá slatti af fjölskyldunni okkar eftir þar.

Eruð þið ekkert á leiðinni aftur þangað?

Nei, ekkert allavega sem ég hef frétt af. Við erum ánægð hér.

Hvernig er í Verzlunarskólanum?

Þegar maður var lítill þá var maður að slá inn Verzló-myndböndin á You-tube. Svo þegar maður er í þessum skóla þá sér maður að þetta er í alvöru svona. Allur metnaðurinn sem er lagður í allar þemavikur og svoleiðis – þetta er bara geggjað.

En þú hefur þurft að vera með góðar einkunnir til að komast í hann.

Já, algjörlega. Það eru svo margar litlar stelpur, vinkonur systur minnar, sem spyrja mig út í Verzló. Ég lærði náttúrlega til þess að komast í Verzló. Þegar ég er spurð, sérstaklega af litlum börnum, hvernig það sé að vera í Verzló þá segi ég frá skólanum en svo er ég að reyna að hvetja þau til þess að læra ef þau vilja komast inn í skólann eins og ég.

Þú hefur verið mjög duglegur námsmaður.

Já, ég hef verið svolítið heppin með að ég hef náð íslenskunni. Það hefur tekist mjög auðveldlega hjá mér. En auðvitað var ég líka heima og lærði nógu mikið.

Þú vilt hvetja ungmenni, innflytjendur, sem hafa flutt hingað með foreldrum sínum, til að fara í íþróttirnar. Þú telur að það sé lykilatriði.

Já, það er lykilatriði. Þetta hjálpar svo mikið, sérstaklega til að hjálpa krökkum að komast í vinahópa og safna minningum. Þegar ég var í körfunni þá lærði ég svo margt. Það stærsta sem ég myndi taka frá íþróttaiðkun minni var að maður lærði að bera virðingu fyrir öðrum. Ég man þegar ég æfði hjá Bylgju Sverris og Jóhannesi Kristbjörns, þá lærði maður frá þeim hvað virðing og íþróttamennska skiptir miklu máli. Maður á bara að koma vel fram við aðra, bæði utan vallar og innan.

En félagslífið fyrir utan, var einhver tími fyrir það?

Þegar ég var yngri þá var ég stundum í sundi, dansi og fótbolta. En eftir sjötta bekk valdi maður yfirleitt eina íþrótt og hélt sér þar. Það var kannski ekkert mjög mikill tími til að vera í mörgum íþróttum en maður hafði samt alltaf einhvern tíma til að fara og hitta vini.

Hér eru íþróttir í hávegum hafðar, fótbolti, sund, körfubolti og fleiri. Heldurðu að þú eigir eftir að sjá nöfn innflytjenda koma upp í þessum greinum og verða afreksfólk?

Já, ég hef mjög mikla trú á því. Maciek Baginski er einmitt eitt nafnið sem við höfum á blaði. Ég hef mikla trú á því. Ég sagði einmitt þegar ég var að halda fyrirlestrana í grunnskólum, að enginn draumur væri of stór. Það er aukaæfingin sem skapar meistarann, það finnst mér. Manni var alltaf kennt að æfingin skapaði meistarann en ég myndi segja að það væri aukaæfingin. Þeir sem æfa aukalega eru þeir sem skara fram úr.