Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 4. desember 2019 kl. 11:17

Fáum mikið út úr samstarfinu

Þingkonurnar Silja Dögg Gunnarsdóttir og Oddný G. Harðardóttir stýra Norðurlandaráði næsta ári

Silja Dögg Gunnarsdóttir var kosin forseti Norðurlandsráðs fyrir árið 2020 en Ísland tekur þá við formennskunni af Svíþjóð. Næsta Norðurlandaráðsþing fer fram í Reykjavík í lok október næsta árs. Oddný Harðardóttir var kosin varaforseti Norðurlandaráðs. Víkurfréttir hitti þær stöllur við Norræna húsið í Reykjavík og spurðu þær út í Norðurlandaráð og fleiri mál.

Það er ekki á hverjum degi sem tvær Suðurnesjakonur eru kosnar sem forseti og varaforseti Norðurlandaráðs. Getið þið sagt okkur frá Norðurlandaráði?

Silja: Norðurlandaráð var stofnað, að mig minnir, árið 1952, eins og svo margar alþjóðlegar stofnanir í kjölfar seinni heimstyrjaldarinnar til að auka samstarf á milli ríkja. Þetta er samstarf, annars vegar á milli allra norrænu þinganna og svo á milli ráðherra eða framkvæmdavalds ríkjanna, þ.e.a.s. með norræna ráðherranefnd og svo erum við með þing Norðurlandaráðs sem við Oddný munum leiða núna á næsta ári.

Hvað er mikið mál að vera forseti þarna?

Silja: Það er rosalega mikið mál. Það er rosalega gaman held ég líka. Ég mun þá sem forseti bera ábyrgð á nefndarstarfinu vegna þess að Norðurlandaráðsþing, það er rétt eins og íslenska Alþingi, þar eru nefndir um ákveðna málaflokka og við tökum fyrir mál og afgreiðum þau. Þetta eru í rauninni hefðbundin þingstörf þannig að við berum þá ábyrgð á fjármálaáætlun þingsins, nefndarstarfi og öllu innra starfi. Við erum með tuttugu manna skrifstofu í Kaupmannahöfn og starfsfólk þar sem við vinnum náttúrlega mjög náið með. Þetta er heilmikil vinna og svo vinnum við líka mjög náið, fyrir utan náttúrlega með norrænum þjóðum í þessu samstarfi, með Eystrasaltsríkjunum, Benelúx-löndunum og fleiri ríkjum og stofnunum.

Oddný, eru þetta mál sem skipta meðalljónin einhverju máli?

Oddný: Já, einmitt, þau eru nákvæmlega þannig. Við tökum fyrir stóru málin, eins og heilbrigðismál, umhverfismál og öryggismál, og tengjum saman norrænu gildin, hvað það sé sem við viljum standa vörð um og hvað það sé sem við viljum fara með í gegnum öll þingin og fela ríkisstjórnunum að gera. Sem dæmi um þetta þá var samþykkt stefna um samfélagsöryggi á þessu síðasta þingi og það er ekki hernaður eða neitt slíkt heldur gerum við okkur grein fyrir því að það er alls konar vá sem getur steðjað að samfélögunum. Það eru farsóttir, það eru tölvuárásir, loftlagsvá, eldgos, jarðskjálftar og það sem við þekkjum. Þar vorum við Norðurlandaráð að segja mjög skýrt hvað það væri sem við vildum að ríkisstjórnirnar gerðu til þess að sameina krafta, þekkingu og tól þannig að ef eitthvað svona kemur upp í einu landi þá sameinist allir um að hjálpa til. Í öllum könnunum sem hafa verið gerðar um norrænt samstarf kemur í ljós að níutíu og eitthvað prósent Norðurlandabúa vilja aukið samstarf og fremst nefna þeir samfélagsöryggi og svo velferðarmál, svo bara þessi norrænu gildi, menningu og sögu sem við viljum standa vörð um.

Eigum við Íslendingar fullt sammerkt með okkar frændþjóðum í praktískum atriðum? Er margt sem við getum unnið saman að?

Oddný: Við fáum hugmyndir og þetta eru stærri þjóðir, þ.e.a.s. stóru þjóðirnar, síðan eru auðvitað Færeyingar, Grænlendingar og Álandseyjar, sem hafa oft gefið okkur góðar hugmyndir sem við höfum síðan hermt eftir. Við græðum á þessu samstarfi alveg örugglega.

Erum við að græða sem ein af litlu þjóðunum í þessu?

Silja: Alveg klárlega. Við erum að fá mjög mikið út úr þessu samstarfi og fólk kannski veltir fyrir sér núna hvað þetta áþreifanlega sé sem við erum raunverulega að fá út úr þessu. Rauði þráðurinn í okkar samstarfi er afnám stjórnsýsluhindrana, þ.e.a.s. svona laga og reglna sem koma í veg fyrir það að við njótum sömu réttinda á hinum Norðurlöndunum af því við viljum gjarnan geta fært okkur þarna frjálst á milli og til dæmis fengið okkar menntun viðurkennda, fengið heilbrigðisþjónustu og annað þegar þess þarf. Við leggjum mikla áherslu á þá vinnu. Eitt af þeim málum sem við í Íslandsdeildinni, við erum sjö í Íslandsdeild Norðurlandaráðs sem er skipuð á Alþingi, það er að það verði leyft að gefa út svokallaða rafræna fylgiseðla að lyfjum. Þú gætir þá farið í þitt apótek og pantað þér fylgiseðil með lyfinu sem skýrir mögulegar aukaverkanir og eitthvað svoleiðis á þínu móðurmáli, hvort sem þú ert Tælendingur, Pólverji, Íslendingur eða Bandaríkjamaður. Þetta myndi líka þýða það fyrir okkur, óbreyttan Íslendinginn, að við gætum verið með sameiginleg innkaup með hinum Norðurlandaþjóðunum og fengið þannig lyf á hagstæðara verði sem myndi skipta mjög marga mjög miklu máli.

Oddný: Það eru kannski stóru stjórnsýsluhindranirnar að fá starfsmenntun metna á milli landa. En það er eitt sem mér finnst að við á Alþingi getum lært af Norðurlandaráðsþinginu og það er samstarfið og hvernig norrænu þjóðirnar komast að málamiðlunum. Í Norðurlandaráði, þó svo við séum með þingmenn og svo ráðherranefnd, er enginn meirihluti eða minnihluti sem er starfandi, heldur eru bara flokkahópar og það koma fram þingmál sem við ræðum um í flokkahópunum og finnum við einhverja leið til þess að lenda málum. Þetta er mjög lausnamiðað. Menn fara ekkert í stjórn og stjórnarandstöðu eins og við gerum svolítið oft hérna á Alþingi. Miðjuhópurinn sem Silja er í gerir einhverja athugasemd við tillögu frá okkur Jafnaðarmönnum og þá finnum við einhverja leið til þess að koma málinu í gegn.

Silja: Þetta er mjög gott. Ég er ekki að segja að það sé alltaf auðvelt að finna leiðir til málamiðlana en nú er það hins vegar þannig að ég hef verið mikið í öðru utanríkisstarfi á vegum þingsins utan Norðurlandanna og það er oft auðveldara að finna sameiginlegu leiðirnar í Norðurlandaráði heldur en annars staðar vegna þess að við deilum þessum sameiginlegu gildum sem eru mannréttindi, lýðræði og velferð. Þetta er alveg gegnumgangandi hvað varðar okkar gildi. Sjálfstæðismaður frá Íslandi á mögulega meira skoðanalega sameiginlegt með Jafnaðarmanni frá Norðurlöndunum heldur en hægrimanni frá Ítalíu eða svoleiðis. Við erum svolítið lík og það er margt sem tengir okkur.

Oddný: Gullið okkar á Norðurlöndum er traustið. Það er meira traust á milli manna og til stofnana á Norðurlöndum heldur en annars staðar og það er auðvitað friðurinn og friðsamlegar lausnir og svo frjáls samfélög.

„Ég held að sú vinna taki nú bara engan enda, stofnanirnar okkar á Suðurnesjum sem við erum stöðugt að berjast við að fá ásættanleg fjárframlög til reksturs, til að tryggja okkur Suðurnesjamönnum sambærilega þjónustu og aðstöðu eins og öðrum landsmönnum. Það er auðvitað heilbrigðisstofnunin okkar og menntastofnanirnar sérstaklega sem við höfum verið að leggja áherslu á“

En hingað heim. Þið eruð að berjast alla daga í þinginu hér heima. Hver eru stærstu málefnin sem snúa að Suðurnesjamönnum þessa dagana?

Silja: Það eru nú, eins og svo oft áður og ég held að sú vinna taki nú bara engan enda, stofnanirnar okkar á Suðurnesjum sem við erum stöðugt að berjast við að fá ásættanleg fjárframlög til reksturs, til að tryggja okkur Suðurnesjamönnum sambærilega þjónustu og aðstöðu eins og öðrum landsmönnum. Það er auðvitað heilbrigðisstofnunin okkar og menntastofnanirnar sérstaklega sem við höfum verið að leggja áherslu á. Maður telur sér trú um það að einhverju séum við að fá áorkað og mér finnst vera meiri skilningur núna heldur en þegar ég byrjaði á þinginu fyrir sex árum vegna þess að við Suðurnesjamenn höfum verið að benda á að þessi reiknilíkön sem notuð eru til grundvallar í fjárlagavinnunni séu skökk. Það sé ekki tekið tillit til gríðarlegrar mannfjölgunar sem hefur verið á okkar svæði á undanförnu og okkar alþjóðlegi flugvöllur sem staðsettur er hér og verður vonandi um ókomin ár. Mér finnst skilningur innan ráðuneytanna vera að aukast en auðvitað vildi maður vilja sjá breytingarnar gerast hraðar og við skulum sjá hvernig þessu lýkur núna rétt fyrir jólin þegar við afgreiðum fjárlögin.

„Það er engin sérstaða sem þú sérð í fjárlögunum fyrir Suðurnesin en sérstaða Suðurnesja er svo hrópandi. Á undanförnum sex árum hefur okkur fjölgað um rúm 30%, meðan á hverju ári er gert ráð fyrir rétt um 1% fjölgun þegar verið er að reikna út fjárframlög til ríkisstofnanna“

Oddný, þú hefur nú látið til þín taka í þessu máli.

Oddný: Já og ég er alveg að missa þolinmæðina. En nú er það þannig að þingið allt samþykkti að horfa sérstaklega til Suðurnesja og setja starfshóp í gang til þess að fara yfir þjónustu ríkisins við íbúa Suðurnesja. Ég var mjög ánægð með að það skyldi fara í gegn af því það var viðurkenning á því að þarna ætti að kíkja sérstaklega á þennan landshluta. Nefndin átti að skila 1. desember og hugmyndin með þeirri dagsetningu var að við gætum þá fengið einhverjar tillögur inn í fjárlögin. Þessi nefnd er ekki enn búin að hittast. Það er búið að boða til fundar en fyrsti fundurinn hefur ekki átt sér stað þannig mér finnst þetta ótrúlegur seinagangur og það er ekkert að sjá. Þegar ég segi ekkert þá er það kannski eitthvað pínulítið hér og þar sem varla telur. Það er engin sérstaða sem þú sérð í fjárlögunum fyrir Suðurnesin en sérstaða Suðurnesja er svo hrópandi. Á undanförnum sex árum hefur okkur fjölgað um rúm 30%, meðan á hverju ári er gert ráð fyrir rétt um 1% fjölgun þegar verið er að reikna út fjárframlög til ríkisstofnanna. Fólk á Suðurnesjum veikist og slasast og allt þetta eins og aðrir landsmenn og við þurfum á heilbrigðisþjónustu að halda. Við þurfum á góðri menntaþjónustu að halda, símenntun fyrir fólkið okkar sem er því miður allt of margt atvinnulaust núna. Í Reykjanesbæ eru 6,5% atvinnulausir, 6,4% í Suðurnesjabæ, 5%  í Vogum á meðan það er lítið atvinnuleysi í Grindavík. Meðaltal atvinnulausra á Suðurnesjum er 5,2%. Það er 3,8% á höfuðborgarsvæðinu öllu. Það verður að líta sérstaklega til Suðurnesja. Íbúasamsetningin er líka mjög sérstök og hún er líka kostnaðarsöm.

Silja, þú ert í meirihlutanum í ríkisstjórn. Hvernig stendur á þessu?

Silja: Þetta er rosalega góð spurning. Ef ég vissi það þá væri ég bara búin að redda þessu en þetta er náttúrlega bara, eins og við líkjum þessu stundum við risastórt olíuskip, sem er búið að ganga einhvern veginn sömu leiðina áratugum saman og við erum að reyna að breyta stefnunni. Maður væri ekki í þessari baráttu ef maður tryði ekki á að maður næði fram einhverjum breytingum fyrir þing og ég vissi það alveg þegar ég settist á þing að það myndi reyna mjög mikið á minn veikasta hlekk sem er óþolinmæðin. Þegar þú ert að tala um stjórnsýslu og breytingar þá tekur þetta allt saman rosalegan tíma en það er ekki þar með sagt að við megum afskrifa að breytingar geti nokkurn tímann átt sér stað. Það er eilíft að vera að minna á sig. Maður upplifir það stundum að þetta sé okkar þingmannanna bara að breyta þessu með handafli því við erum nú ríkisstjórn, þetta er pólitísk ákvörðun, voða einfalt og eitthvað bla, bla, bla. Þetta tekur tíma, þetta er erfitt og við þurfum mjög mikla samstöðu sem ég tel að sé til staðar á Suðurnesjum, á milli þingmanna, íbúa og sveitarstjórnarmanna. Þetta er ekki einhvers eins, tveggja eða þriggja að breyta þegar við erum að taka þetta stóra skip og snúa því til betri vegar sem við erum að reyna að gera.

Það er örugglega eitthvað gott í gangi, er það ekki?

Oddný: Ég er bara ekki búin að sjá þau, því miður.

Silja: Við fengum nú 90 milljónir í fjárauka eftir fall WOW sem var sett inn í menntastofnanir, meðal annars á Suðurnesjum, sem var mjög gott og nú hefur Fjölbrautaskólinn hafið framkvæmdir við að bæta við skólastofum sem er orðið mjög brýnt að gera. Það er verið að gera eitthvað en það þarf að gera meira. Það þarf að gerast hraðar vegna þess að mannfjölgunin hefur verið mjög hröð og mjög sérstök. Eins og Oddný benti á þá er íbúasamsetningin líka mjög sérstök á okkar svæði sem taka þarf tillit til í fjárlögunum ásamt staðsetningu flugstöðvarinnar. Þaðan eru að koma sjúklingar, sjúkraflutningar hafa stóraukist, við erum með vinsælasta ferðamannastað landsins, Bláa lónið, og eins og ég segi, mér finnst skilningurinn vera að aukast í ráðuneytunum en þetta er náttúrlega bara vinna og það þarf að halda áfram að grafa skurðinn.

Oddný: Mér finnst þetta vera einfalt. Það er bara vilji sem þarf til þess að láta Suðurnesjamenn hafa fjármagn til þess að setja í almennilega þjónustu, heilbrigðisþjónustu og menntun, löggæslu og almenningssamgöngur. Þetta er allt saman hagur almennings og íbúanna á Suðurnesjum sem eru tæplega 30 þúsund talsins.

Silja: Ég vil koma því að við þingmenn Suðurkjördæmis, ég og Oddný og aðrir þingmenn, við erum tíu þingmenn í Suðurkjördæmi og úr öllum flokkum, að við höfum verið mjög samtaka um málefni svæðisins þó okkur greini stundum á. Ég held við séum sammála um flest og við til dæmis vorum öll á tillögu Oddnýjar varðandi það að tekið yrði sérstakt tillit til Suðurnesjanna og svo var ég að leggja fram þingsályktun nýlega varðandi það að farið verði í stefnuvinnu varðandi framhaldsmenntun á Suðurnesjum. Þar eru allir þingmenn Suðurkjördæmis meðflutningsmenn. Við fundum reglulega og tökum stöðuna á okkar verkefnalista, með ráðherrum málaflokka og brýnum fyrir þeim okkar áherslum og hvað við heyrum heima.

Oddný: Þetta er alveg satt, að okkar fundir eru góðir og jákvæðir, en svo þegar við fáum fjármálaáætlun til næstu fimm ára og leitum að okkar stofnun þá er lækkun, ekki hækkun, lækkun á árinu 2022 og þá fallast manni algjörlega hendur. Þetta á að vera einhvern veginn öðruvísi.

Silja: Já, maður verður náttúrlega ekkert hress. Þetta er vinna og við erum ekki búin að afgreiða fjárlögin. Núna er vinnan að laga þetta og breyta þessu áður en greitt verður atkvæði um þau seinnipartinn í desember.