Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 10. janúar 2021 kl. 07:12

Eitt stærsta og flóknasta verkefni sem ég hef tekið þátt í

– segir Sveinbjörg Ólafsdóttir, deildarstjóri hjúkrunarmóttöku á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Erfiðast í upphafi faraldursins þegar skortur var á sýnatökupinnum og vísa þurfti fólki frá því það var ekki „nægilega“ veikt. Stórt skref að fá bóluefni.

„Þetta er eitt stærsta og flóknasta verkefni sem ég hef tekið þátt í á starfsferli mínum en á sama tíma lært svo margt en ófyrirsjáanleikinn hefur verið einna erfiðastur,“ segir Sveinbjörg Ólafsdóttir, deildarstjóri hjúkrunarmóttöku á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en hún hefur verið í Covid-19 framlínunni hjá HSS frá byrjun. Hún segir að gríðarlegt álag hafi verið á starfsfólki Heilsugæslu HSS vegna Covid-19 þar sem allir hafi þurft að hlaupa hratt og gera sitt besta til að ná að halda utan um ástandið og sinna sínum skjólstæðingum á sem allra best.

„Strax í upphafi faraldursins var mikil upplýsingaþörf hjá almenningi og símarnir rauðglóandi og það hefur það  verið stórt hlutverk okkar hjúkrunarfræðinga allan þennan tíma að sinna þessari upplýsingagjöf í gegnum síma. Eðlilega var fólk óöruggt og vildi komast í tengingu við heilbrigðiskerfið. Við fundum fyrir miklum heilsukvíða og streitu vegna hinnar óþekktu veiru og Það vildi fá upplýsingar og tryggingu fyrir því að það væri verið að gera þetta rétt. Breytingarnar voru svo örar til að byrja með og við hjúkrunarfræðingarnar áttum fullt í fangi með að læra hvernig við ættum að bregðast við og halda ró okkar í þessu ölduróti. Einna erfiðast var það í upphafi faraldursins þegar skortur var á sýnatökupinnum og þurfum að vísa fólki frá því það var ekki „nægilega“ veikt samkvæmt ábendingum landlæknis fyrir sýnatökum.

Skipulag og framkvæmd Covid-19 sýnatöku hefur hvílt á herðum hjúkrunarfræðinga. Í upphafi fóru sýnatökurnar á HSS fram undir beru lofti í öllum veðrum. Fyrir framan HSS urðu langar bílaraðir og algjört umferðaröngþveiti. Allt ferlið frá símatali skjólstæðings, sýnatökur og eftirfylgni niðurstaðna var sinnt af hjúkrunarfræðingum. „Umfangið var gríðarlegt og sóttvarnir gríðarlega mikilvægar því við þurfum að vernda starfsfólkið og allir verkferlar  og skipulag tengt sýnatökum þarf að vera skýrt. Á heilsugæslu urðum við að forgangsraða erindum en eðli samkvæmt er ákveðin þjónusta lífsnauðsynleg og ekki hægt að fresta. Um mitt sumar bættist svo seinni landamæraskimun við. Þá kynntumst við nýungum á sviði tæknilausna sem gerði vinnu okkar auðveldari og skilvirkari. Hugbúnaðarfyrirtæki Origo þróaði þetta kerfi í samstarfi við almannavarnir, heilsugæslu, lögreglu og Isavia og margir komu að verkefninu.

Þegar önnur bylgjan hafði riðið yfir var ljóst að heilsugæslan var orðin undirlögð af Covid-erindum. Símarnir voru rauðglóandi og mikil starfsemi í sýnatökum. Því var ljóst að ef heilsugæslan ætlaði að halda uppi hefðbundinni starfsemi þyrfti að reyna að finnar nýjar lausnir því ekkert fararsnið var á veirunni. Ekki væri boðlegt að vera úti í sýnatökum annan vetur. Landamærakerfið var svo þróað áfram og nýtt í einkenna­sýnatökur og við fórum að taka sýnin á Fitjabraut í iðnaðarhúsnæði,“ segir Sveinbjörg.

Hún segir að starfsmenn hafi verið oðrnir hálf bugaðir af gríðarlegu álagi. Þegar nýjar tæknilausnir til að auðvelda vinnu þeirra bárust hafi það verið bylting.

„Þetta kerfi er auðvelt og skilvirkt og gerir vinnu okkur einfaldari og léttari því með sjálfvirkninni geta skjólstæðingar bókað sýnatöku sjálfir á Heilsuveru og allt ferlið þurfti ekki lengur að fara í gegnum okkur hjúkrunarfræðingana. Samt sem áður eru símtalin enn ófá við að veita ráðleggingar tengt Covid og að hughreysta fólk.

Þriðja bylgjan af Covid, sem gengur yfir núna, er mun erfiðari en hinar tvær að mínu mati. Hún er erfiðari þar sem nú fer meira að reyna á þolið. Þetta er alveg hætt að vera nýtt og spennandi. Annað sem er erfiðara í þessari bylgju er að það hafa svo mörg börn lent í sóttkví og heilu leikskólarnir þurfa að mæta í sýnatöku til að losna úr sóttkví – en Kathy, hjúkrunarfræðingur frá skólahjúkrun, mætti í Bersabúningi og vakti það svo mikla lukku og gerði okkar vinnu auðveldari,“ segir Sveinbjörg.

Hún segir að á HSS sé mikill mannauður og hún sé ótrúlega stolt og þakklát fyrir að fá að vera samferða og starfa með svona flottum hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki í heilsugæslunni. „Ég merki ótrúlegan vilja, þol, þrautseigju, styrk, góðmennsku og kærleik frá þeim á hverjum degi. Þessi samheldni mun fleyta okkur langt í nýjum verkefnum sem framundan eru að bólusetja Suðurnesjamenn fyrir Covid-19. Þannig að það eru spennandi tímar framundan og bjartsýni að á árinu 2021 sjáum við fyrir endann á Covid-19-faraldrinum,“ segir Sveinbjörg.

Sveinbjörg vígaleg á vettvangi í sýnatöku sem fram fer í iðnaðarhúsi við Fitjabraut í Njarðvík. Hún tók á móti fólki sem var að koma og skannaði kóða sem það hafði fengið sendan. Þrír aðrir starfsmenn frá Öryggismiðstöðinni sem hafa aðstoðað við þessa vinnu, tóku síðan sýni úr fólkinu.

Það finnst mörgum óþægilegt þegar pinnanum er stungið í nefið.

Eftir sýnatöku nærri fimmtíu manns var gengið frá og þá er sprittað.

Dýrmætt innihald. Sigríður Pálína Arnardóttir, lyfjafræðingur HSS, með kassann sem innihélt bóluefni, fyrsta skammt fyrir Suðurnesjamenn.

Blandað og skammtað í sprautur

Það var mikil spenna og eftirvænting í loftinu þegar kassi með bóluefninu kom í hús á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja um hádegisbilið mánudaginn 29. desember. Sigríður Pálína Arnardóttir, lyfjafræðingur HSS, tók á móti kassanum sem innihélt fyrsta skammtinn fyrir Suðurnesjamenn, heilbrigðisstarfsmenn HSS og eldri borgara á Hlévangi og Nesvöllum hjá Hrafnistu og í Víðihlíðl í Grindavík. Þessi fyrsti skammtur var ekki stór, 33 glös með 160 skömmtum. Þegar Sigríður Pálína var búinn að ganga frá formsatriðum í móttöku bólefnisins tók við blöndun þess en þynna þarf bóluefnið með saltvatni og síðan setja hæfilega skammta í sprautur. Hjúkrunarfræðingarnir á HSS sáu um það og bólusetninguna. Þeir sem fengu bólusetningu voru 110 vistmenn á hjúkrunarheimilunum, 43 starfsmenn HSS og sjö einstaklingar í heimahjúkrun. Næsti bólusetningaskammtur er jafn stór og verður 19. janúar en Sveinbjörg Ólafsdóttir  segir að ekki hafi verið staðfest hvenær næstu skammtar af bóluefni komi. Þeir sem fá næstu bólusetningu eru vistfólk á sambýlum á Suðurnesjum, starfsfólk heimahjúkrunar HSS og starfsmenn hjúkrunarheimila.

Kristín Sigurmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur á HSS, fékk fyrst allra á Suðurnesjum bólusetningu.

María Arnlaugsdóttir, 99 ára og elsti núlifandi Suðurnesjamaðurinn fékk fyrst allra almennra bæjarbúa bólusetningu. Sveinbjörg mundaði sprautuna. VF-myndir/pket.

Jón Ísleifsson, 91 árs á hjúkrunarheimilinu Nesvöllum, fékk fyrstur íbúa þar bólusetningu.

Frá bólusetningum á Hlévangi, hjúkrunarheimili Hrafnistu í Reykjanesbæ.