Laugardagur 5. desember 2020 kl. 06:31

Blue Car Rental gefur glæsilegan Dacia Duster

„Vildum gera eitthvað skemmtilegt á erfiðu ári,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri.

„Fyrirtækið, rétt eins og allir aðrir í ferðageiranum hefur átt á brattann að sækja síðustu mánuði en ætlar ekki að láta deigan síga heldur gera eitthvað skemmtilegt til að vega upp á móti erfiðleikum og þungum tímum í samfélaginu. Við ákváðum því að bregða á leik á þessu skrýtna veiruári og ætlum að gefa bíl í skemmtilegum markaðsleik „Átt þú hann skilið?“ og 14. desember verður fagurblár og glæsilegur Dacia Duster afhentur nýjum eiganda,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri bílaleigunnar Blue Car Rental í Reykjanesbæ.

Til að eiga möguleika á að vinna bílinn þarf aðeins að skrá sig í Blue-bílaklúbbinn á vefsíðunni Bluebill.is. Þá þarf að „læka“ síðu fyrirtækisins á Facebook og „deila“ leiknum. „Við erum að leita að einhverjum sem á hann skilið. (#áttþúhannskilið). Einhver sem veitir innblástur, einhver skemmtilegur eða jafnvel skemmtilega leiðinlegur. Einhver snillingur eða einhver sem þarf á honum að halda. Einhver sem á hann skilið,“ segir Þorsteinn en leitin að nýjum eiganda bílsins stendur yfir í fjórtán daga. Hún hófst í morgun, 1. desember, og hefur Blue Car Rental fengið nokkrar samfélagsmiðlastjörnur með sér í lið sem munu vekja athygli á leiknum á meðan hann stendur yfir.

„Við hjá Blue erum „team“ Duster en það er ástæða fyrir því að hann er vinsælasti bílaleigubíll landsins og kallaður Rúmenski Cadillac-inn. Andvirði gjafarinnar er 1.200.000 krónur en innifalið í gjöfinni er árs þjónusta á bílnum hjá Blue Car Rental. Um er að ræða okkar vinsælasta bíl, Dacia Duster, sem er fjórhjóladrifinn og beinskiptur bíll frá árinu 2017. Bíllinn er ekinn 146.000 km. og hefur þjónustuverkstæði Blue Car Rental farið afar vel yfir bílinn. Það má segja að hann sé í toppstandi og án nokkurs vafa glæsilegasti Duster landsins,“ segir Þorsteinn og jánkar því að árið sé búið að vera erfitt.

Aðspurður segir Þorsteinn að Blue Car Rental að fyrirtækið sé einmitt rekið á jákvæðni og stjórnendur þess vilja nýta óvenjulega tíma í að fjárfesta í framtíðinni, í mannauðnum og vörumerkinu. Þannig hafi verið ákveðið að halda eins mörgum störfum og mögulegt var en nú starfa 43 í 31 stöðugildi hjá fyrirtækinu. Hann segir síðustu mánuði vissulega hafa verið afar krefjandi en fyrirtækið búi mjög vel eftir tíu frábær ár sem það taki með sér í gegnum þessa erfiðu tíma. Þótt flæði ferðamanna hafi minnkað sé alltaf hægt að sjá jákvæð teikn á lofti og að Bláa bílnum sé ætlað að halda uppi stemmningunni sem ekki veiti af.

„Það kom okkur skemmtilega á óvart hversu mikil bílasala var í sumar og hefur það verið stór áhrifavaldur í okkar rekstri og í raun umfangsmesti hlutinn af okkar starfsemi í ár. Til að gefa því byr undir báða vængi hefur Blue Car Rental opnað vefinn Bluebill.is. Tilgangur hans er einmitt að senda fólki þau skilaboð að bílaleigubílar séu frábær kostur í kaupum, enda fáir bílar sem fá jafn umfangsmikið og ítarlegt viðhald eins og okkar,“ segir Þorsteinn og bætir því við að Blái bíllinn sé liður í því að styrkja orðspor bílaleigubíla á íslenskum markaði.

„Við vitum að í flestöllum geirum eru rekstraraðilar sem stytta sér leiðir og bílaleigubransinn hefur mögulega skaddast af því síðustu ár en blessunarlega eru mun fleiri sem vanda gríðarlega vel til verka í rekstrinum og huga vel að eignum sínum. Blue bílar eru þar fremstir á meðal jafningja enda fái þeir framúrskarandi þjónustu frá fyrstu leigu fram yfir þá síðustu. Það er líka engin tilviljun að bíllinn er blár, litur okkar og litur traustsins,“ sagði Þorsteinn.

Bláu bræðurnir Magnús Sverrir og Þorsteinn Þorsteinssynir við glæsilega Duster bílinn sem einhver mun eignast. VF-mynd: pket

Blue Car Rental er fjölskyldufyrirtæki

sem var stofnað 2010 og er stærsta alíslenska bílaleigan á Íslandi. Hjá fyrirtækinu starfa í dag 43 manns en starfsmannafjöldinn var rúmlega 70 í vor. Samhliða útleigu á bílum rekur Blue Car Rental fullbúið þjónustuverkstæði, dekkjaverkstæði og sprautuverkstæði. Fyrirtækið leggur mikla áherslu á að bjóða upp á góða þjónustu og stafrænar lausnir til að mæta nýjum þörfum viðskiptavina. Þá er öryggi viðskiptavinarins ávallt haft að leiðarljósi. Með því að bjóða upp á nýja og vel útbúna bíla getur fyrirtækið tryggt öryggi viðskiptavinarins og boðið upp á frábæra þjónustu.