Laugardagur 19. febrúar 2022 kl. 11:36

Barnið upplifi vellíðan og öryggi í vatninu

„Þetta hefur gengið rosalega vel frá því ég byrjaði fyrir átta árum síðan og það hefur bara verið aukning síðustu ár,“ Jóhanna Ingvarsdóttir, íþróttafræðingur og ungbarnasundkennari, sem á laugardagsmorgnum er með ungbarnasund í sundlaug Akurskóla. Ungbarnasundið nýtur mikilla vinsælda og í dag eru fimm til sex hópar að jafnaði á námskeiðum Jóhönnu.

„Að kenna ungbarnasund er það skemmtilegasta sem ég geri. Mér líður aldrei eins og ég sé að fara að mæta í vinnuna þegar ég vakna á laugardagsmorgnum, þetta eru virkilega gefandi gleðistundir. Það er svo dásamlegt andrúmsloft sem ríkir í sundlauginni og það er svo gaman að fá að upplifa þessar samverustundir með foreldrum þar sem nýja barnið er í forgrunni,“ segir Jóhanna um ungbarnasundið.

Hvað þarf barn að vera gamalt til að hefja ungbarnasund?

„Til þess að hefja ungbarnasund þarf barn að vera átta vikna og hafa náð fjögurra kílóa þyngd. Þriggja til sex mánaða er algengasti aldur sem börn byrja. Barnið er samt aldrei orðið of gamalt til að byrja. Ég er með hópa fyrir börn frá aldrinum þriggja mánaða til fjögurra ára.“

Tilgangur og markmið með ungbarnasundi er margþætt, m.a. að venja barn við vatnsumhverfi og að það upplifi vellíðan og öryggi í vatninu. Að barnið fái útrás fyrir hreyfiþörf og efli hreyfiþroska og styrk. Að barnið fái örvun gegnum snertingu, hljóð, söng, liti og samskipti. Að efla tengsl milli foreldra og barns. Að foreldrar tengist öðrum foreldrum sem eru einnig með ungbörn. Börnunum þykir einnig mjög spennandi og áhugavert að hitta og vera í samskiptum við önnur börn.

Á ungbarnasundnámskeiðinu vekur athygli að litlu krílin eiga auðvelt með að kafa. Af hverju geta ungabörn kafað?

„Börn fæðast með ósjálfrátt viðbragð sem kallast köfunarviðbragð. Þetta viðbragð er varnarviðbragð sem lýsir sér þannig að barn getur lokað öndunarfærum sínum þegar vatn kemst í snertingu við andlit og/eða öndunarfæri þess. Þegar barn hefur kafað reglulega verður þetta ósjálfráða viðbragð að sjálfráðu viðbragði. Barn getur því haldið niðri í sér andanum þegar það fær merki um að köfun sé að hefjast.

Þegar Jóhanna er spurð um ástæður þess að hún fór að kenna ungbarnasund og hvort hún væri sjálf sundkona, þá stóð ekki á svari.

„Ég er alls ekki sundkona. Ég fór í íþróttafræði en kem ekki úr sundgrein. Steindór Gunnarsson, sundkappi, plataði mig hins vegar til að þjálfa sund og ég heillaðist af því. Hann lét mig ekkert vera og hringdi í mig daglega til að fá mig til að kenna og þjálfa sund fyrir ÍRB. Ég leiddist svo út í að kenna sund hér við Akurskóla og hef kennt hér síðan 2007. Ég hef alltaf meira og meira verið í sundlauginni. Ég hætti þjálfun hjá ÍRB og fór að kenna ungbarnasund 2014, þannig að Steindór er kannski bara upphafið af þessu hjá mér að ég endaði hér sem sundkennari, því það var ekki það sem ég ætlaði að gera.“

Hvernig kemur svo ungbarnasundið hjá þér?

„Það er bara tilviljun. Ég var í fæðingarorlofi með yngsta barnið mitt. Heiðrún, sem var að kenna ungbarnasundið áður, vildi taka pásu frá þessu en hún hafði verið með ungbarnasundið í sjö ár. Hún sendi á okkur nokkrar sem vorum að kenna sund, hvort við vildum taka við af henni. Þetta heillaði mig og tilvalið að bæta þessu við,“ segir Jóhanna.

Jóhanna segir að þetta sé einstaklega gott fyrir pabbana að taka þátt í svona námskeiði með börnin sín, hitta aðra pabba og deila reynslunni með öðrum foreldrum sem eru að gera sömu hluti. Jóhanna segir pabbana yfirleitt endast lengi í ungbarnasundinu. Þegar mæðurnar eru að eiga fleiri börn, þá halda þeir áfram með krílin í sundinu en sundkennsla er í boði fyrir börn upp í fjögurra ára aldur.

Ungbarnasund í Reykjanesbæ // Febrúar 2022