Laugardagur 16. mars 2019 kl. 07:00

Almættið vakir yfir Jóni á Skála

Er elstur Grindvíkinga og verður 98 ára í sumar

Hann er elstur núlifandi Grindvíkinga og heitir Jón Valgeir Guðmundsson. Hann er yfirleitt kallaður Jón á Skála og er kenndur við Ísólfsskála þar sem hann ólst upp. Hann verður 98 ára í sumar og er mjög ern. Systkini hans náðu flest háum aldri en Valgerður Guðmundsdóttir, systir hans, lést árið 2013 og var á 102. aldursári. Jón er einn eftirlifandi úr ellefu systkina hópi.
 
Það var ánægjulegt að heilsa upp á manninn sem lék við hvern sinn fingur, ótrúlega hress og minnugur, þuldi vísur sem hann hefur samið sjálfur og sagði frá á lifandi hátt. Hann meira að segja hóf upp raust sína og söng vísur sem hann orti þegar hann var í útilegu með ættingjum og vinum en það var afmælisferð á 95 ára afmæli hans. Við gefum Jóni orðið:
 

Lukkan hefur alltaf verið með mér
 

„Ég er fæddur 4. júlí árið 1921 og heiti eftir afa mínum og ömmu sem dóu sama ár og ég fæddist. Mér var gefið grátt lamb þegar ég fæddist og það var mikil happakind eins og allt hefur verið hjá mér um dagana. Lukka hefur alltaf verið yfir mér og þakka ég almættinu það. Það er almætti yfir mér. Þessi tilvera er þannig útbúin að þeir sem lenda í höndum almættisins, það kemur ekkert fyrir þá. Þeir eru látnir vita og fá aðvaranir í draumi ef eitthvað á að ske og þannig hefur það alltaf verið hjá mér.“
 
Þegar rætt er við Jón þá finnur maður það glöggt að maðurinn er trúaður en hann var fengsæll sjómaður um ævina og treysti almættinu fyrir sér og áhöfn sinni. Mönnum fannst gott að hafa hann um borð því hann var berdreyminn og fékk fyrirboða í gegnum draumfarir sínar.


 

Berdreyminn sjómaður
 

„Við keyptum bát frá Þýskalandi 1959 og ég var sendur út ásamt öðrum en ég var útgerðarstjóri. Svo lögðum við af stað frá Þýskalandi og fórum þarna inn í Skagerrak og Kattegat. Ég vakna þar um morguninn við draum þar tveir kvenmenn, allsberir eða því sem næst, ráðast á mig og ætla að drepa mig. Ég vakna við þetta og þegar ég kem á fætur þá tala ég við skipstjórann og vélstjórann, segi þeim drauminn og segi einnig að við munum fá stórveður í tvo daga og það muni litlu að við munum farast. Jæja, en svo leggjum við af stað. Þegar við komum á Færeyjabanka var þar stórsjór sem gekk yfir bátinn, þá kemur þessi voða sjór á eftir bátnum en hann var kaldbakslaus þá. Ég ákvað að stoppa vélina. Þá kemur siglingafræðingurinn til mín og spyr mig hvers vegna ég sé að slá af. Ég sagði við hann að ef ég hefði ég ekki slegið af þá hefðum við hvolft bátnum. Bara af því að báturinn var kyrr þá slapp hann því það var engin ferð á honum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég hef dreymt á lífsleiðinni fyrir einu og öðru. Þetta er bara eitt brot af því.“


Alin upp á Ísólfsskála
 

Jón segir jafnframt að þeir sem vilja hlusta eftir almættinu fá leiðbeiningar og það sé bara staðreynd. Maður fær það á tilfinninguna þegar hlustað er á Jón segja frá að hann sé ekki eins og fólk er flest, jafnvel skyggn en hann þvertekur fyrir það þegar blaðamaður spyr hann. Manni virðist hann samt eiga svör við öllu og því lék okkur forvitni á að vita hvers vegna Jón haldi að hann sé svona langlífur. 
 
„Það hefur aldrei grandað mér eitt eða neitt um dagana. Ég hef alltaf verið frískur og alltaf unnið voðalega mikið frá blautu barnsbeini. Foreldrar mínir, Guðmundur Guðmundsson og Agnes Jónsdóttir, voru fædd þó nokkru fyrir aldamótin 1900. Þau byggðu húsið að Ísólfsskála sem stendur enn. Það var þarna áður bara gamalt moldarbarð sem afi átti. Mamma mín átti fimm börn áður. Hún var fráskilin og réði sig sem ráðskonu hjá pabba mínum á Hrauni í Grindavík. Hann gerði út þaðan og þau fluttu svo upp á Skála árið 1908. Saman eignuðust þau sex börn. Mamma eignaðist ellefu börn allt í allt. Hún var afskaplega dugleg kona og kenndi okkur systkinunum að lesa, skrifa og reikna. Hún kunni þessi ósköp af öllu mögulegu. Hún var af duglegu fólki komin, það var mikið hæfu fólki í Grindavík. Hún fór í skóla í Grindavík og varð hæst af öllum nemendum. Hún gat þulið ótal vísur og kvæði. Mamma sá til þess að við urðum læs, hún kenndi okkur allt. Við fórum aðeins eitt ár í barnaskóla niðri í Grindavík en það var fyrir fermingu. Fram að því hafði mamma kennt okkur. Þá var ekki vegur á milli Ísólfsskála og Grindavíkur og því var okkur systkinum komið fyrir hjá fólki sem pabbi þekkti aðallega í Grindavík á meðan við vorum í barnaskólanum.“


Hænan sem breyttist í hana
 

Búskapur var að Ísólfsskála en foreldrar Jóns voru með 250 kindur, þrjár kýr, hænur og það sem því fylgdi. Furðusagan um hænuna sem breyttist í hana er sönn segir Jón sem ólst upp í sveitinni. 
 
„Já, já, það er satt. Það var svoleiðis að Einar sálugi í Krosshúsum var hænsnahirðir en hann átti danska konu. Hann seldi voða mikið af eggjum. Svo kom þetta upp að Skálanum og hann var svo hugfanginn af þessu þegar hænan fór að gala. Hænur gala, konur tala, hérna suður í Grindavík. Þetta kom í blöðunum. Sagan um risakolkrabbann er ekki sönn en það getur hafa verið löngu fyrir mína tíð.“


Ótrúlega minnugur 
 

Við Jón ræðum um góða veðrið og sólina sem skín inn um gluggann þennan dag sem við mæltum okkur mót. Hann segir að sumarið framundan verði frábært og fór svo með vísu sem fjallaði um veðurfar á Íslandi án þess að hika. 
 
„Það var talið að fösturnar færu eftir jólaföstunni. Jólafastan í ár var alveg glimrandi góð, alltaf svona þurrt og sólskin. Í fyrra var alltaf ausandi rigning, þreifandi bylur og læti og þannig fór sumarið í fyrra. Það var talað um þetta og þetta vissu gömlu mennirnir. Þetta var bara staðreynd. Þeir bjuggu svo mikið til þetta fólk. Ég ætla að fara með þessa þulu fyrir þig: 
 
Tólf eru synir tímans                                                     
sem tifa fram hjá þér.
 
 
Janúar er á undan
með árið í faðmi sér.
 
 
Febrúar og fannir
þá læðist geislinn lágt.
 
 
Í mars þó blási oft biturt
þá birtir smátt og smátt.
 
 
Í apríl sumar aftur
þá ómar söngur nýr.
 
 
Í maí flytur fólkið
og fuglinn hreiður býr.
 
 
Í júní sest ei sólin
þá brosir blómafjöld.
 
 
Í júlí er bagginn bundinn
og borðuð töðugjöld.
 
 
Í ágúst slá menn engin
og börnin týna ber.
 
 
Í september fer söngfugl
og sumardýrðin þver.
 
 
Í október fer skólinn
að bjóða börnum heim.
 
 
Í nóvember er náttlangt
í norðurljósageim.
 
 
Þó desember sé dimmur
þá dýrðleg á hann jól.
 
 
Á honum endar árið
og aftur hækkar sól.
 
Svona voru vísurnar, þær sögðu okkur hvað væri framundan. Þetta hefur verið troðið niður. Ég hef talað við margt meiriháttar fólk sem hefur aldrei heyrt þetta fyrr. Áður fyrr voru þetta heimildarvísur.“


Heillaður af hafinu
 

„Ég var aðallega að leika mér með báta, ég var allur fyrir sjó. Þarna við Ísólfsskála var tjörn og ég sigldi þar bátum sem ég bjó til sjálfur. Ég var líka niðri í fjöru að leika en við vorum einnig að hjálpa til á bænum. Pabbi byggði húsið okkar árið 1931 og þar bjó ég megnið af ævi minni. Vegurinn kom þangað út eftir árið 1930 og ég var svo heppinn að ég fékk að fara í vegavinnuna. Ég var sendur heim um ellefuleytið til að elda matinn ofan í mennina og ég eldaði saltfisk á prímus. Einar Benediktsson skáld átti heima á þessum tíma í Herdísarvík. Svo fór ég til sjós árið 1935 frá Grindavík en þá var ég fjórtán ára og fékk 150 krónur fyrir veturinn. Ég fékk hálfan hlut því ég var nýgræðingur. Ég þurfti að kaupa stakk fyrir tíu krónur og stígvél fyrir tólf krónur af þessum peningum. En ég fékk frían mat um borð. Fólk var glatt og þakklátt fyrir lítið á þessum tíma.“
 

Grindavík er góður staður
 

„Hér í Grindavík hef ég alltaf kunnað vel við mig, það er voðalega gott að vera hér. Það er búið að gera þessa fínu höfn hérna. Ég byrjaði á því að kaupa mér trillu sem var eitt og hálft tonn. Ég fiskaði mikið á þá trillu, þetta var happabátur. Ég fékk gamlan mann, Magnús Hafliðason frá Hrauni í Grindavík, til að vera með mér. Hann sótti mikið sjó. Þetta var einhver elskulegasti maður sem ég þekkti. Hvað mér þótti undarlegt að hann kom stundum yfir til okkar á Skála með fullan poka af fiski sem hann bar á bakinu. Ég ákvað ungur að hjálpa honum seinna ef hann þyrfti. Við rérum saman í þrjátíu ár og hann var alveg stórskemmtilegur maður.“


Uppskrift að langri ævi
 

„Ég finn ekkert til, ég týni ekki neinu svona, ég man bara allt. Stóra málið í lífinu er að hafa alla með sér. Ég hef aldrei lent í neinum ryskingum, aldrei nokkurn tímann. Ég hef aldrei sýnt neinum óvild. Almættið er alltaf hjá mér. Þess vegna er ég svo heilbrigður á sálinni, það er staðreynd. Ég réri stundum einn á bát og lengi en ég fann aldrei fyrir hræðslu, aldrei nokkurn tímann því það hefur alltaf verið þetta almætti yfir mér sem ég hef alltaf trúað á. Ég er ekki í neinum vafa með það. Ég hræðist ekki dauðann. Ég bjó til eina vísu um lífið og dauðann.
 
Lífið það er margslungið, 
mæðir ríka og snauða, 
engin getur umflúið 
þennan líkamsdauða. 
 
Líkaminn verður alltaf eftir. Ég veit svo ekkert meira hvað verður um sálina. Þegar kallið kemur þá kaupir sér engin frí.“
 

Ekki hrifin af ráðamönnum þjóðarinnar
 

„Mér finnst voða lítið gott við nútímann. Hver höndin er upp á móti annarri. Hugsaðu þér til dæmis eins og núna þegar verið er að semja um kaup og kjör almennings. Svo rísa allt í einu bankastjórar upp og eru að fá 48% kauphækkun. Heldurðu að þetta liðki fyrir samningum? Þeir bjuggu til verðbætur og verðbólgu en þetta er hvergi til í heiminum nema hér. Þetta drepur niður fátæka fólkið sem þarf að byggja upp. Auðvitað hefðum við það betra ef verðbólguvísitala væri ekki þá værum við ekki alltaf að borga sömu töluna. Það kemst aldrei neitt í það horf sem það á vera þegar vextir og verðbólguvísitala er að stjórna þessu öllu. Þegar ég er farinn af jörðunni þá skiptir þetta mig engu máli því ég kem aldrei hingað aftur. Það sem fer kemur aldrei aftur. Þegar það kemur aftur þá eru það draugar, framliðnir. Þetta líf er bundið við þessa jörð og það er búið þar með. Það lifir engin lengur en einu sinni. Ég hef enga trú á endurfæðingu nema í gegnum afkomendur okkar. Ég á þó nokkuð af afkomendum og konan mín líka. Ég er voða hrifinn af börnum. Ég eignaðist sjálfur þrjú börn með fyrri konu minni, einn dreng og tvær stúlkur. Ég giftist fyrri konu minni Ingunni árið 1944. Hún átti heima í Flóa þegar ég kynntist henni. Við skildum en í dag er ég kvæntur Erlu Stefánsdóttur. Hún átti sex börn og var ekkja þegar ég kynntist henni. Það var guðs blessun að við náðum saman. Við erum svo ánægð með að hafa hitt hvort annað. Ég bað almættið um að senda mér konu og hann sendi mér Erlu sem er eins og engill. Okkur líður vel saman.“ 


Lífið hans Jóns
 

„Ég les mikið af bókum. Reyki ekki, ekkert tygg. Tek ekki í nefið. En í staupið ögn ég þigg ef að mér er gefið. Hinrik gaf mér pela um daginn þegar hann kom frá Kanaríeyjum. Ég hef samt alltaf verið reglumaður um ævina. Aldrei lent í neinu. Það var oft hræðilegt þegar menn komu í land hér áður fyrr en ég hef aldrei lent í neinu. Ég borða hádegismat hér í Víðhlíð en svo borðum við Erla hérna uppi hjá okkur á kvöldin og um helgar. Við gerum þetta sjálf.“


 

Draumar sem boðuðu allsnægtir
 

„Ég dreymdi það að ég var með svo mikið af skítapokum, átján nítján stykki og ég hugsaði með mér að þetta væri fjandans vitleysa þegar ég vaknaði. Svo fer ég til sjós og fram á nesið og var að draga karfa og þorsk. Þá heyri ég smell frammi í vélarrúmi og fer niður og sé að það er slitinn reim. Ég gat ekki verið á sjó rafmagnslaus svo ég fer í land til að kaupa reim. Þá hugsa ég með mér að ég verði að kaupa mér lottómiða fyrst ég var kominn í land. Þarna vann ég átjánhundruð þúsund krónur. Ég er ekki skyggn, þetta er náttúruleg gáfa sem öllum er gefin og þurfa að fylgjast með draumum sínum. Þetta er ekki hindurvitni og svona draumar koma yfirleitt fram daginn eftir. Brim táknar fiskerí hjá mér. Svo var það annar draumur þegar ég var á Þorbirninum á síld 1961 með Þórarni Ólafssyni skipstjóra. Mig dreymir það að Þórarinn sé farinn í land með bátinn og það sé komið versta veður. Svo ríður yfir holskefla á Þorbjörninn og það er ekkert uppúr nema möstrin. Ég segi þeim um borð daginn eftir að draumurinn sé fyrir því að við fáum fullan bát af síld og þetta verði áður en ég sofna næst. Við fórum svo á ball um kvöldið á Norðfirði vegna veðurs. Við förum niður í bát um tvöleytið um nóttina og ég segi svona við Þórarin að nú sé líklega komið sjóveður úti. „Af hverju heldurðu það?“ spyr hann. „Það var mál manna,“ segi ég við hann, „að þegar það er hætt að ganga inn í firðina þá væri komið sjóveður úti.“ „Farðu og gáðu að strákunum,“ segir hann og segir mér að sleppa og við fórum út. Við fórum að syngja á leiðinni út á mið, Þórir og ég. Hann var söngelskur og ég gat tekið allar raddir. Voða gaman. Eftir rúman klukkutíma þá sjáum við torfu og það er kastað í torfuna og við fyllum bátinn. Klukkan níu um morguninn komum við aftur inn á Norðfjörð og þar eru allir hinir bátarnir bundnir við bryggju. Eftir draumnum. Hann sagði við mig að það væru ekki allir svona heppnir að hafa mann eins og mig um borð, sem var alltaf svona jákvæður og berdreyminn. Já, ég þakka Guði fyrir hvað ég er vel gerður og hef lifað súrt og sætt með eðlilegum hætti,“ segir Jón að lokum og við kveðjum þennan mæta mann.