Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 5. desember 2020 kl. 06:36

Alexandra semur óperu um Vigdísi forseta - menningarverðlaunahafi í VF viðtali

Sópransöngkonan og tónskáldið Alexandra Chernyshova hlaut Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar, fyrir árið 2020. Verðlaunin hlýtur hún fyrir framlag sitt til eflingar tónlistarlífs í Reykjanesbæ. Verðlaunagripurinn er silfursúla eftir keflvísku listakonuna Elísabetu Ásberg. 

Alexandra er fædd  árið 1979 og uppalin í Úkraínu og Rússlandi en hún fluttist til Íslands árið 2003 og er nú íslenskur ríkisborgari. Hún hefur tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi og rekið, ásamt eiginmanni sínum, Jóni R. Hilmarssyni, menningar- og fræðslufyrirtækið „DreamVoices“ frá árinu 2006. Alexandra hefur verið afkastamikil og hefur meðal annars stofnað kóra, óperufélag, haldið fjölmarga tónleika, gefið út geisladiska og samið tónlist. Í öllum þessum verkefnum hefur hún virkjað og fengið til liðs við sig fjölda listamanna, innlenda sem erlenda. Alexandra hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir árangur sinn á sviði tónlistar. Árið 2014 var hún valin í hóp tíu framúrskarandi ungra Íslendinga fyrir framlag sitt til menningar á Íslandi. Þá komst hún á topp tíu listann í World Folk Vision, alþjóðlegri tónlistarkeppni, í sumar með laginu Ave María úr frumsömdu óperunni „Skáldið og biskupsdóttirin“. Nú í haust sigraði hún í alþjóðlegri tónskáldakeppni í Moskvu fyrir tónsmíð, 14 lög, úr sömu óperu og samin er við handrit Guðrúnar Ásmundsdóttur, fyrstu óperu sem Alexandra samdi.

Við hittum hina úkraínsku, rússnesku, brosandi Alexendru, nú íbúa Reykjanesbæjar á heimili hennar í Njarðvík.