Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Pistlar

Við getum gert betur
Mánudagur 3. október 2022 kl. 09:56

Við getum gert betur

Það þarf þorp til að ala upp barn er kunnur málsháttur. Það eru orð að sönnu. Velflest sveitarfélög eru dugleg við sinna skyldum sínum og skapa aðstæður þannig að börn og unglingar fái sem best veganesti út í lífið sem svo tekur við. Það líf getur orðið á mismunandi hátt og vonandi hjá flestum án stóráfalla. Lausnir við sumum þeim vanda sem upp kann að koma er fundinn staður í hinu opinbera kerfi, oft með lágmarkslausnum og ráð fyrir því gert að það sem upp kann að koma umfram þær lausnir leysi menn annað hvort sjálfir eða njóti aðstoðar margskonar félagasamtaka, sem reiða sig á framlag sjálfboðaliða, eða ólaunaðra sérfræðinga eins og einn orðaði það.

Björgunarsveitirnar, Rauði krossinn, Krabbameinsfélagið auk margra annarra eru þannig félög. Félög sem reiða sig á starf sjálfboðaliða sem ávallt eru tilbúnir til aðstoðar ef á bjátar. Samt er það þannig að starf sjálfboðaliðanna felst ekki eingöngu í aðstoð, heldur fer mikill hluti tíma stjórna í að tryggja fjárhagslegan grundvöll þess starfs sem unnin er. Sækja um allskonar styrki til að halda mikilvægu starfi gangandi.

Public deli
Public deli

Það er nokkuð magnað að eini eiginlegi styrkur ríkisins til björgunarsveitanna sé til dæmis að leyfa þeim að dæla litaðri olíu á tækin sín, þó inn á milli komi til svo sérstakar greiðslur vegna sérverkefna eins og t.d. vegna eldgosa og annarar óáran. Við eigum sem samfélag að geta gert betur.

Ríki, sveitarfélög og jafnvel fyrirtækin í landinu ættu að bindast samtökum um að tryggja slíkum félögum fasta styrki, gera starf þeirra fyrirsjáanlegra. Svipað og gert er til að mynda gagnvart íþróttafélögunum þar sem sveitarfélögin sjá um að skapa og kosta aðstöðuna. Gera ráð fyrir í fjárhagsáætlunum sínum sanngjörnu framlagi til slíkrar félaga og búa til hvata fyrir fyrirtækin í landinu til að gerast bakhjarlar slíkra félaga.

Nú þegar að vinna við fjárhagsáætlanir næsta árs er á lokametrunum væri ekki úr vegi fyrir þá fulltrúa sem þær vinna að velta fyrir sér mikilvægi slíkra félaga í samfélaginu. Er eitthvað sem samfélagið getur gert til að auðvelda slíkum félögum starfið? Ég held að svarið sé augljóst – en um leið er þetta bara spurning um afstöðu. Við getum gert betur.