Pistlar

Verkefnin eru misjöfn
Fimmtudagur 4. febrúar 2021 kl. 11:23

Verkefnin eru misjöfn

Verkefni okkar í lífinu eru misjöfn og leiðin ekki alltaf greið. Í þessu tölublaði fáum við innsýn í líf fólks sem hefur þurft að taka á honum stóra sínum eða er að taka á honum stóra sínum. Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein er með vitundarvakningu og fjáröflunarherferð þessa dagana og vekur athygli á hversu marga krabbamein hefur áhrif á. Víkurfréttir ræða við fertugan Njarðvíking sem greindist með illkynja krabbamein og er nú í miðri lyfjameðferð eftir uppskurð. Um 70 ungir einstaklingar greinast með krabbamein á hverju ári. Kraftur vekur athygli á því að krabbameinið snertir ekki einungis þann sem greinist heldur fjölmarga í kringum hann, fjölskyldu, ættingja og vini. Árni Björn Ólafsson ræðir opinskátt baráttu sína við Hilmar Braga Bárðarson, blaðamann VF og segir að hann sé staddur úti í miðri á og hann hafi ekki hugmynd hvernig framtíðin verði. Hann fékk í 40 ára afmælisgjöf uppsögn í starfi sínu sem vettvangsliði á Keflavíkurflugvelli á síðasta ári í kjölfar Covid-19 og missti svo móður sína á árinu. Þegar hann og systkini hans voru að skipuleggja jarðarför hennar greindist hann með illkynja ristilkrabbamein. „Það var ekki krabbameinið sem gerði mig hræddan, aðgerðin eða lyfjameðferðin. Það var ferðlagið sjálft sem ég óttaðist. Að heyra að einhver gaur út í bæ sé með ristilkrabbamein fær mann til að hugsa að hann sé ekki að fara lifa þetta af,“ segir Árni Björn og ræðir m.a. viðbrögð vina og ættingja en hann hefur leyft þeim og vinum sínum á Facebook að fylgjast með gangi mála. Segir það hafa hjálpað sér í baráttunni.

Í blaðinu ræðir Marta Eiríksdóttir, blaðamaður VF, við feðginin Matta Ósvald og Evu Maríu, dóttur hans. Matti var í sigursælu körfuboltaliði Keflavíkur þegar hann var ungur en bakmeiðsli komu í veg fyrir að hann héldi áfram í körfubolta. Hann menntaði sig sem heilsuráðgjafa og síðar sem markþjálfa. Eva María, dóttir hans, segir okkur frá baráttu sinni sem ungri stúlku en hún fetaði holóttan veg í sjö ár áður en hún segist hafa opnað augu sín fyrir sjálfri sér og hætti að deyfa innri sársauka. Í dag stýrir hún hinu vinsæla hlaðvarpi Norminu með vinkonu sinni.

Public deli
Public deli

Við ræðum líka við Kristinn Óskarsson sem dæmdi sinn 800. leik í úrvalsdeild körfuboltans í vikunni en hann er reynslumesti körfuboltadómari landsins eftir 32 ár á gólfinu. Við sýnum ykkur áfram eldra efni úr 40 ára sögu Víkurfrétta og þar kennir margra gras.

Svo hafa verið að berast jákvæðar fréttir að undanförnu og í samantekt okkar um stöðuna hjá Isavia kemur fram að stórframkvæmdir verða við flugstöð Leifs Eiríkssonar í ár og næstu árin og hefjast á næstu vikum. Þær munu skapa allt að 700 störf á árinu og jafnvel fleiri þegar mest verður. Eitthvað sem við höfum verið að bíða eftir. Það vita allir hver staðan í atvinnumálum á Suðurnesjum er en þessar framkvæmdir munu vonandi minnka langan lista atvinnulausra.

Við höldum í þá von og erum bara nokkuð viss um að við séum að koma út úr kófinu og venjulegt líf taki við
– en höldum áfram okkar striki í öllu sem þríeykið vill að við gerum. Þannig mun þetta ganga vel.

Páll Ketilsson