Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Pistlar

Útgerð í Vogum á Vatnsleysuströnd
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 29. október 2021 kl. 10:10

Útgerð í Vogum á Vatnsleysuströnd

Í þessum pistlum mínum þá hef ég skrifað mikið um veiðar báta frá þessum helstu stöðum á Suðurnesjum,  þ.e.a.s Sandgerði,  Grindavík og Keflavík.

Það er reyndar einn staður í viðbót sem líka á sér útgerðarsögu á Suðurnesjum þótt að það hafi ekki verið landaður afli þar síðan 2015. Þetta er Vogar á Vatnsleysuströnd.  

Public deli
Public deli

Lítum aðeins á útgerð frá Vogum því hún tengist Sandgerði og Keflavík varðandi bátana. framan af öldum var mest um landbúnað á Vatnsleysuströndinni og þeir sem réru til fiskjar voru að mestu bændur sem réru á árabátum sínum og fóru þá stutt út og þá aðalega í grásleppuna. Þegar togarnir fóru að koma til Íslands voru t.d nokkrir þeirra mannaðir með mönnum sem voru frá Vatnsleysuströndinni, og t.d togarinn Baldur RE sem var gerður út frá Reykjavík á árunum 1921 til 1941 var mannaður að mestu með mönnum frá Vatnsleysuströnd.  

En uppúr 1928 var farið að ræða það að hvort hægt væri að stunda vélbátaútgerð frá Vogum og var í framhaldinu af því stofnað Útgerðarfélag Vatnsleysustrandar (ÚV) árið 1930. Var samið við skipasmíðastöð í Fredrikssund í Danmörku um að smíða tvo báta og fengu þeir nafnið Huginn GK og Muninn GK. Huginn GK kom til landsins snemma árs 1931 og Muninn GK kom í maí 1931. Á sama tíma og samið var um smíði bátanna var bryggja smíðuð í Vogum og var hún 84 metrar á lengd og 3 metrar á breidd. Fyrstu vertíðina árið 1931 var Huginn GK gerður út og aflaðist vel á bátinn en erfiðlega gekk að selja saltfiskinn því mikið verðfall var á verkuðum saltfiski og líka það að Muninn GK kom mun seinna en áætlað var gerði það að verkum að rekstur ÚV varð mjög erfiður.

Annað áfall kom fyrir árið 1933 en þá var aftakaveður úr vestri og á fjörunni tóku bátarnir niðri í Vogum og skemmdist hæll Hugins GK nokkuð mikið en Muninn GK brotnaði mikið, báðir bátarnir fóru í slipp en vegna þess hversu margir bátar skemmdust  í þessu veðri dróst viðgerð á Muninn GK nokkuð. Vegna þess hversu erfiðlega gekk fyrsta árið hjá ÚV árið 1931, þá hafði það áhrif á reksturinn hjá fyrirtækinu og fór svo að lokum að félaginu var slitið árið 1935.

Af bátunum er það að segja að Huginn GK var seldur árið 1935 en þó innanbæjar í Vogum og fékk nafnið Jón Dan GK. Var hann gerður út með  því  nafni frá Vogum til ársins 1945. Þaðan var hann seldur til Grundarfjarðar og fékk nafnið Farsæll SH,  árið 1950 var hann seldur til Grindavíkur og fékk nafnið Sæborg GK. Jón Dan fór aftur í Breiðafjörðinn árið 1953 og fékk nafnið Sæborg BA skráður í Flatey.  Árið 1956 kom hann til Reykjavíkur og fékk nafnið Sæborg RE 328 og var með það til árins 1964 þegar báturinn kom til Keflavíkur og fékk þar nafnið Sæborg KE. Var hann með því nafni í þrettán ár, fram til ársins 1977 þegar Magnús Þórarinsson kaupir bátinn og gaf honum nafnið Bergþór KE 5.  Magnús var mikill aflaskipstjóri á bátunum sem voru með þessu nafni, enn hann fórst í hörmulegu sjóslysi á vertíðinni árið 1988 en með honum um borð var sonur hans, Einar Magnússon, sem bjargaðist.  Einar gerði í framhaldinu út í mörg ár báta sem hétu Ósk KE og meðal annars er núverandi Maron GK, gamla Ósk KE.

En áfram með Huginn GK. Magnús átti bátinn í tvö ár þegar hann var seldur til Grindavíkur og fékk þar nafnið Ingólfur GK 125 en árið 1988 var hann seldur innanbæjar í Grindavík og fékk nafnið Fengsæll GK.  Árið 1991 var báturinn seldur til Súðavíkur og fékk nafnið Fengsæll ÍS og það er nokkuð merkilegt að báturinn var gerður þar út til ársins 2003 og fór 3 róðra árið 2005. Hann liggur nú í fjörunni í Súðavík og er orðinn 91 árs gamall og útgerðarsaga bátsins var því alls 73 ár sem er nú með því mesta sem gerist á Íslandi.  Þessi bátur er í dag með elstu bátum sem eru ennþá á skrá á Íslandi.  

Ég þarf að skrifa þessa sögu í nokkrum hlutum um útgerð í Vogum og læt því þessum fyrsta hluta sögu útgerðar lokið enn í næsta pistli þá höldum við áfram með söguna og munum þá byrja á Muninn GK, sem var hinn báturinn sem að ÚV átti.