Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Úr einu í annað
Föstudagur 16. júlí 2021 kl. 08:41

Úr einu í annað

LOKAORÐ: ÖRVAR Þ. KRISTJÁNSSON

Það er sannkölluð Spánarblíða núna dag eftir dag og sumarið líður allt of hratt. Reyndar er þessi blíða bara fyrir norðan og austan en hérna á Reykjanesinu hefur sumarið ekki enn látið sjá sig, kemur eflaust á Ljósanótt. Pottþétt eldgosinu um að kenna en það skemmir þó ekki gleðina hjá fólki sem hefur brosað út að eyrum í allt sumar. Takmarkanir sem settu nánast allt líf okkar í fjötra á löngu tímabili eru ekki lengur í gildi og veislur og mannfagnaðir eru nánast á hverju horni. Það varð að fórna og fresta ýmsu í faraldrinum og ljóst að fólk er svo sannarlega að fara eftir mottóinu góða að „lifa núna“ og það til hins ýtrasta! Gleðin virðist vera allsráðandi og meira að segja fyrir skömmu síðan kom jákvæður póstur inn á „Reykjanesbær-gerum góðan bæ betri“-síðuna á Facebook! Það fraus næstum hjá mér nettengingin þegar sá póstur var opnaður, enda óvænt. Ég verð reyndar að taka undir smá tuð þar inni sem snýr að gæðum slátturs hér í bæ en t.d. á Njarðvíkurbrautinni í Innri-Njarðvík um daginn þá sýndist mér að menn hafi slegið grasið þar með jarðýtu. Jákvæða er að það þarf ekki að slá þarna aftur fyrr en sumarið 2024.

Einn af þessum mannfögnuðum sem ég fagna mikið þessa dagana að séu komnir á fullt eru brúðkaupin. Þau hafa sjaldan eða aldrei verið skemmtilegri. Fór í eitt helvíti skemmtilegt um daginn. Lenti þar á spjalli við eldri hjón sem hafa verið gift í næstum 43 ár, virkuðu afar hress og hamingjusöm og litu ótrúlega vel út miðað við aldur og fyrri störf. Ég spurði þau eftir nokkra bjóra hver lykillinn væri að svona löngu og hamingjusömu hjónabandi. Sú gamla var snögg að svara, hún vildi meina að síðustu árin hafi þau haft það fyrir reglu að fara alltaf út að borða og á hótel einu sinni í viku. „Góður matur, gott spjall og svo mikið svefnherbergisfjör upp á hótelherberginu,“ sagði hún og brosti.  Sá gamli sagði þá nokkuð ákveðið: „Lykillinn er reyndar sá að ég fer á fimmtudögum og hún á sunnudögum!“ Þau voru eldhress.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Sumar fréttir gleðja mann meira en aðrar, það er bara þannig. Ein slík var frétt í þessari viku af Elsu Pálsdóttur, kraftlyftingakonu úr Garðinum, sem varð Evrópumeistari og setti hvorki fleiri né færri en fimm heims- og Evrópumet á EM í kraftlyftingum öldunga sem fram fór í Tékklandi. Ótrúlegt afrek og ekki síst vegna þess að Elsa hefur bara æft klassískar kraftlyftingar í rúm tvö ár. Í heimi fullum af neikvæðum fréttum þá eru það svona tíðindi sem kæta og veita fólki ákveðinn innblástur. Til hamingju Elsa!