Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Uppruni hlutanna
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 21. nóvember 2021 kl. 07:05

Uppruni hlutanna

Eikarbáturinn Gunnar Hámundarson GK 357 ber hönnuðum og smíðum sínum fagurt vitni þó langt sé um liðið frá því að honum var hleypt af stokkunum. Smíðaður árið 1954 hjá Skipasmíðastöð Njarðvíkur og var hann nýsmíði númer eitt hjá stöðinni.

Gunnar Hámundarson var alla tíð gerður út til fiskjar af sömu útgerð, Gunnari Hámundarsyni ehf. sem stofnað var í Garði árið 1911 sem gerir það sennilega að elsta útgerðarfélagi landsins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þó svo að Gunnar Hámundarson sé orðinn „löggilt gamalmenni“, 67 ára og horfinn héðan af Suðurnesjum fyrir nokkru síðan, þá er hann hvergi nærri sestur í helgan stein. Hann rær nú á norðlensk mið með hvalaglápara víðsvegar að úr heiminum.

Upprunastaður Gunnars, Skipasmíðastöð Njarðvíkur, er enn á sínum stað en hlutafélag um stöðina var stofnað í febrúar árið 1945. Markmið stöðvarinnar sem sett voru í upphafi á stjórnarfundi voru orðrétt: „Tilgangur fjelagsins er að annast skipasmíðar og skipaviðgerðir, uppsátur skipa, vjelsmíði og vjelaviðgerðir og allskonar vjelavinnu á járn og trje, ennfremur efnissölu.“

Þó svo að ekki fari mikið fyrir nýsmíði á skipum hjá stöðinni í dag þá eru menn þar bæ hvergi af baki dottnir. Stór áform eru uppi um uppbyggingu nýs skipaþjónustuklasa í Njarðvík í framtíðinni. Snýr það verkefni meðal annars að bættri aðstöðu í Njarðvíkurhöfn, kaupum á þurrkví fyrir stórskip sem yrði yfirbyggð. 

Það er ljóst að framtíðin hjá þessu eina elsta fyrirtæki Suðurnesja er björt ef af áformum verður.