Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Ufsaveiðar ganga vel
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 12. ágúst 2022 kl. 20:07

Ufsaveiðar ganga vel

Eins og kom fram í síðasta pistli þá hafa strandveiðibátarnir lokið veiðum en það er ekki þar með sagt að handfærabátarnir séu hættir.

Nei, ekki aldeilis – því ansi margir bátar voru á handfærunum í júlí og núna fyrstu dagana í ágúst og voru þá að veiða ufsa í Röstinni og út við Eldey.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Veiðarnar hjá bátunum gengu mjög vel en þetta er langt út að sækja og því þarf að vera nokkuð gott veður til þess að bátarnir fari þetta langt út.

Ef við lítum á nokkra handfærabáta sem voru á ufsanum og hérna eru bátar sem lönduðu í Sandgerði, þá má t.d. nefna Snorra GK 1 sem var með nítján tonn í átta róðrum og af því var ufsi átján tonn, Arnar ÁR 55 með 12,8 tonn í ellefu og ufsi af því 4,5 tonn, Guðrún GK 90 með 33 tonn í aðeins níu róðrum og mest sex tonn, af þessu var ufsi um 31 tonn, Sindri GK með 26 tonn í sjö, mest 4,8 tonn og var ufsi af þessu 24 tonn, Addi Afi GK 44 tonn í átta og mest 7,1 tonn, ufsi af þessu um 42 tonn, Ragnar Alfreðs GK 39,4 tonn í sjö, mest 7,9 tonn, og Sara ÍS 34 tonn í sjö og mest 6,1 tonn.

Það má bæta við þetta að núna í byrjun ágúst kom Ragnar Alfreðs GK með 5,3 tonn, Sindri GK 4,4 tonn, báðir í einni löndun, og Margrét SU 6,2 tonn í tveimur róðrum. Svo ágúst byrjar nokkuð vel hjá ufsabátunum.

Hérna eru bátar sem lönduðu í Grindavík; Líf NS 14,3 tonn í sex og var það allt ufsi, Von ÓF átta tonn í fjórum en báturinn hefur verið í smá bilanaveseni og reri því lítið í júlí.

Annars er svo til allur flotinn búinn að vera stopp í júlí og sem dæmi var enginn stór línubátur á veiðum allan júlí, hvorki hjá Vísi ehf. né Þorbirni ehf.

Sama á við um bátana hjá Nesfiski en dragnótabátarnir hófu þó veiðar núna í ágúst og byrja ansi vel. Siggi Bjarna GK var með um 35 tonn í einni löndun, Sigurfari GK um 34 tonn í einni löndun. Pálína Þórunn GK er líka byrjuð en aflatölur um fyrstu löndun hennar voru ekki komnar inn þegar þessi pistill er skrifaður.

Margrét GK er kominn austur á Neskaupstað eftir að hafa róið á línu í júní og júlí frá Sandgerði, sem er nokkuð merkilegt því að undanfarin ár hefur svo til enginn af minni bátunum stundað línuveiðar frá Suðurnesjunum, því hafa allir farið í burtu.

Annars er ágústmánuðurinn síðasti mánuðurinn á þessu fiskveiðiári 2021–2022, því nýtt kvótaár hefst núna 1. september næstkomandi og þá fer allur flotinn af stað og stóru línubátarnir frá Grindavík fara út á land og fiskflutningar verða allsráðandi í haust.

Netabátarnir hans Hólmsgríms hófu veiðar í júlí og núna í byrjun ágúst hefur Hraunsvík GK líka hafið netaveiðar frá Grindavík og hefur Hraunsvík GK landað um 7,3 tonn í tveimur róðrum sem er nú bara nokkuð gott.

Hinir netabátar hans Hólmgríms voru Halldór Afi GK sem var með þrettán tonn í átta róðrum í júlí og núna í ágúst um 2,9 tonn í tveimur róðrum. Maron GK var með 34 tonn í tólf róðrum í júlí og núna í ágúst kominn með þrettán tonn í þremur róðrum.

Grímsnes GK var á ufsaveiðum í net og gekk ansi vel, var með 120 tonn í sjö róðrum og auk þess 24 tonn í einni löndun núna í ágúst. Erling KE fór líka á ufsann en aflatölur um hann voru ekki komnar þegar þetta var skrifað.