Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Pistlar

Þessi ungdómur nú til dags...!
Föstudagur 30. apríl 2021 kl. 15:23

Þessi ungdómur nú til dags...!

Við Lubbi erum mjög dugleg að fara í göngutúra, eins og áður hefur komið fram hér á þessum vettvangi. Við löbbum daglega stóran hring um bæinn, í öllum veðrum og á öllum árstíðum. Við hittum alls konar fólk á öllum aldri sem upp til hópa er kurteist og almennilegt og heilsar og býður góðan daginn. En, ég get ekki orða bundist, þessi ungdómur nú til dags!

Mér er þessi setning úr barnæskunni minnistæð.  Hún var sögð af gömlu fólki, dálítið þóttalega, með ranghvolfd augu og í frekar miklum hneykslistón. Í minningunni var þetta sagt oft og víða, en ég man ekkert sérstaklega af hverju. Ég man bara að ég hafði áhyggjur af því að það yrði aldrei neitt úr þessum blessaða ungdómi. Ég held samt að ungdómurinn hafi ekki verið neitt sérstaklega slæmur í þá daga, alla vega ekkert verri en venjulega. Þetta var frekar bara svona almenn yfirlýsing sem lýsti kannski óþolinmæði og skilningsleysi þeirra eldri í garð þeirra yngri. Kannski hefur þetta alltaf verið svona.

Public deli
Public deli

En þá aftur að ungdómi dagsins í dag og göngutúrunum okkar Lubba og nú ætla ég að fá útrás fyrir miðaldra konuna sem ég er. Mér hefur nefnilega dottið þessi setning aftur og aftur í hug þegar ég mæti krökkum á öllum aldri, frá litlum krílum upp í stálpaða unglinga. Ég verð hreinlega að segja að þessi ungdómur nú til dags kemur mér fyrir sjónir sem alveg einstaklega vel heppnaður ungdómur! Það eru litlu hlutirnir sem heilla mig við þessa krakka. Þau eru opin og ófeimin. Almennt er það þannig að krakkarnir brosa og heilsa og bjóða góðan daginn þegar við mætumst á göngunni. Og þegar einhvern langar að fá að klappa Lubba er alltaf spurt um leyfi fyrst, sem er auðvitað auðfengið þar sem Lubbi er gæðablóð sem finnst ótrúlega gott að láta klappa sér. En þetta kemur mér alltaf jafn skemmtilega á óvart og ég fór að hugsa þetta aðeins í stærra samhengi.

Það er eitthvað sérstakt við þessa kynslóð, eitthvað yfirbragð sem ég hreinlega dáist að. Mér finnst þau upplýst og skemmtilega frökk, óhrædd við að segja sína skoðun, hæfileikarík, réttsýn og fylgin sér. Þau eiga auðvelt með að afla sér upplýsinga um allt milli himins og jarðar, og það sem meira er, þau vita allt aðra hluti en við sem eldri eru. Þau þurfa ekki að hafa áhuga á því sem við höfum áhuga á. Þau eru ekki að afla sér upplýsinga um það sama og við þar sem fréttir í línulegri dagskrá er ekki lengur það sem fjölskyldan sameinast um. En það þýðir ekki að þau fylgist ekki með, þau fá upplýsingarnar einfaldlega annars staðar.

Ég er ánægð með þau og finnst þau frekar töff.

Þessi ungdómur nú til dags...!

Ragnheiður Elín Árnadóttir.