HMS
HMS

Pistlar

Svona gerum við ekki
Föstudagur 15. október 2021 kl. 07:17

Svona gerum við ekki

Það er óhætt að segja að ákvörðun Birgis Þórarinsson, þingmanns, að hætta í Miðflokknum og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn nánast daginn eftir kosningar hafi farið öfugt ofan í landsmenn, alla vega langflesta. Skal engan undra. Ákvörðunin er vægast sagt sérstök.

Vissulega má í mörgum tilfellum sýna því skilning að fólk gangi yfir í aðra stjórnmálaflokka en því miður er mjög erfitt að skilja þessa ákvörðun Vogamannsins sem nú er kominn í þriðja flokkinn á fjórum árum. Kosninganóttin var varla liðin þegar hann var búinn að hafa samband við Sjálfstæðisflokkinn. Það hlýtur að teljast óeðlilegt. Við segjum bara: Svona gerum við ekki.

Bílaverkstæði Þóris
Bílaverkstæði Þóris

Í frétt í blaðinu segjum við frá nýjum hluthöfum í Suðurnesjafyrirtækjunum Icemar og AG-Seafood. Það fyrra er fisksölufyrirtæki en hitt nútíma frystihús í Sandgerði. Ritstjóri Víkurfrétta leit við í húsnæði AG-Seafood í vikunni og það var áhugavert og nokkuð óvænt að sjá umfangsmikla starfsemina. Nýjasta tækni við fiskvinnsluna í bland við handflakara á fleygiferð blasti við augum fréttamannsins í húsnæði sem eigendurnir hafa lagað að starfseminni en þar var áður fiskvinnsla. Það sem er áhugavert við reksturinn er að alla tíð hefur starfsemin keypt fisk af fiskmarkaði þar sem það hefur ekki verið í útgerð. Gunnar Örlygsson sem hefur verið í forystu hjá báðum fyrirtækjunum segir að það séu spennandi tímar framundan eftir að hafa selt stórum erlendum aðilum hlut í félögunum. „Við erum að styrkja okkar stöðu á móti stærri aðilum í sjávarútvegi með því að opna á spennandi nýja markaði.  Við höfum frá upphafi keypt allt hráefni á fiskmörkuðum þar sem við höfum ekki haft útgerð samhliða vinnslunni og erum eitt fárra fyrirtækja sem hefur lifað af þá erfiðu samkeppni sem fylgir því að vera algjörlega háð fiskmörkuðum með hráefnisöflun. Við erum ekki að selja aflaheimildir heldur fyrst og fremst að stækka markaði okkar,“ segir Gunnar í stuttu viðtali í blaðinu. 

Í blaði vikunnar er fjölbreytt efni. Víkurfréttir fóru í 30 ára afmæli hjá Félagi eldri borgara á Suðurnesjum og í undanförnum blöðum höfum við sagt frá undirbúningi Fyrsta kossins en það er nafnið á nýjum söngleik Leikfélags Keflavíkur sem fagnar 60 ára afmæli á árinu. Starfsemin hjá báðum þessum aðilum er til fyrirmyndar og sömuleiðis hjá Tónlistarskóla Grindavíkur sem hefur farið aðra leið í kennsluaðferðum. Í blaðinu er ítarlegt viðtal við skólastjórann en skólinn er tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna.

Að lokum um forsíðufréttina og grein frá forstöðumanni Vinnumálastofnunar Suðurnesja. Atvinnuleysi hefur snarminnkað á árinu en úr-ræði stofnunarinnar og ríkisins til styrktar atvinnulífinu hafa gengið vel. Vonandi erum við komin upp úr vandræðunum sem sköpuðust í heimsfaraldri. Alla vega eru allar flugvélar frá Íslandi fullar af fólki á leið í sólina. Það er vonandi ávísun á að staðan sé orðin mun betri.