Pistlar

Svíður að sjá togarana sitja á þessum bletti utan við Sandgerði
Línubáturinn Sighvatur GK frá Grindavík átti risa mánuð í mars því að báturinn aflaði alls 734,1 tonn í sex róðrum.
Föstudagur 8. apríl 2022 kl. 14:46

Svíður að sjá togarana sitja á þessum bletti utan við Sandgerði

Sauðárkrókur, þaðan sem þessi pistill er skrifaður, á tengingu við Suðurnesin, fyrir ansi marga hluti. Til dæmis var eitt sinn bátur í Sandgerði sem hét Sandgerðingur GK. Hann var seldur til Sauðárkróks og fékk þar nafnið Ólafur Þorsteinsson SK. Stærsta tengingin er þó tengt togurum sem voru gerðir út í Keflavík fyrir um 40 árum síðan. Þá var til Hraðfrystihús Keflavíkur (HK) og það fyrirtæki gerði út tvo skuttogara frá sirka 1975 og fram til 1988.  Þessir tveir togarar hétu Aðalvík KE og Bergvík KE. Þegar kom fram á árið 1988 var HK orðið í nokkrum rekstrarerfiðleikum og Útgerðarfélag Skagfirðinga, sem í dag heitir FISK,  keypti báða þessa togara en lét af hendi frystitogarann Drangey SK.

Þegar HK tók við rekstri Drangeyjar SK, sem HK gaf nafnið Aðalvík KE, létu þeir breyta honum í alfrystitogara, sem þýðir að um borð var fiskurinn flakaður, en þegar að hann hét Drangey SK þá var fiskurinn bara heilfrystur um borð. Rekstur Aðalvíkur KE sem frystitogara gekk mjög illa. Bæði voru breytingar dýrar og svo var mikið um bilanir og á endanum þá fór HK í greiðslustöðvun árið 1990 og þá var Aðalvík KE seld til Akureyrar og fékk þar nafnið Sólbakur EA.

Public deli
Public deli

Færum okkur frá Sauðárkróki og til Suðurnesja. Núna er mikill fjöldi á veiðum utan við Grindavík og nokkur mikill floti á Selvogsbankanum. Mokveiði hefur verið hjá þeim bátum sem eru þar. Lítum á nokkra. Hafrafell SU með 54 tonn í þremur róðrum og mest 21 tonn. Sandfell SU 40 tonn í þremur róðrum og mest 14 tonn. Daðey GK 31 tonn í þremur róðrum. Bíldsey SH 43 tonn í þremur róðrum og má geta þess að báturinn komst í tæp 25 tonn í einni löndun og var þá allt kjaftfullt um borð í bátnum, sjö kör voru full á dekki, lestin var full og laust var um allt í bátnum.

Utan við Sandgerði hafa handfærabátarnir verið og þeir hafa fiskað vel. En eitt vekur athygli. Það er fjögurra mílna landhelgi utan frá Reykjanesi og að Sandgerði. Þar beygir línan í norðvestur og fer þaðan beint yfir Faxaflóann og yfir að Malarrifi á Snæfellsnesinu. Innan þessarar línu eru togveiðar bannaðar. En beint utan við Sandgerði beygir þessi lína og í þessari línu hafa 29 metra togarar frá Grundarfirði togað fram og til baka núna í hátt í tvær vikur. Miðað við veiðina hjá þeim þá hafa þeir fiskað mjög vel þarna, t.d. var Sigurborg SH með 100 tonn, Runólfur SH með 70 tonn og Farsæl SH 100 tonn í tveimur löndunum en hinir eftir eina löndun.  

Sjómenn sem ég hef talað við og hafa róið frá Sandgerði segja að þessi beygja útaf Sandgerði sé mjög góð enn þeim svíður að sjá togarana sitja á þessum bletti því þarna gætu t.d. bátarnir með línu, net og færi fiskað vel.

Og talandi um góða veiði má geta þess að línubáturinn Sighvatur GK frá Grindavík átti risa mánuð í mars því að báturinn aflaði alls 734,1 tonn í sex róðrum eða að jafnaði 122 tonn í löndun. Stærsti túrinn var 154 tonn. Þessi afli er einn sá mesti sem að línubátur hefur náð á einum mánuði.