RNB 17 júní
RNB 17 júní

Pistlar

Suðurnesin eru ekki gleymd
Laugardagur 11. apríl 2020 kl. 10:52

Suðurnesin eru ekki gleymd

Það er óhætt að segja að viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna afleiðingar COVID-19 á Suðurnesjum séu jákvæð en staðan er eins og allir vita mjög alvarleg. Á sjöunda þúsund Suðurnesjamanna hafa misst atvinnuna eða eru komnir í skert starfshlutfall. Fjármálaráðherra sagði að Ísland væri að upplifa erfiðustu kreppu í heila öld. Það er svolítið mikið.

Hann hefur sagt mörgum sinnum að Ísland hafi aldrei verið jafn vel undirbúið fjárhagslega að taka við þeim erfiðleikum sem við erum að upplifa á veirutímum. Flugstöðin er lífæð Suðurnesja en þar vinna þúsundir Suðurnesjamanna og stór hluti af ríkisaðstoð sem kynnt var í vikunni er að auka hlutafé í Isavia um nokkra milljarða. Áætlaður fjöldi nýrra starfa sem verður til við þessar framkvæmdir nemur um 50–125 störfum fyrir hvern mánuð fram á mitt ár 2021. Þá mun verða til fjöldi afleiddra verkefna á Suðurnesjunum sem tengjast umfangsmiklum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Ef sá sem þetta ritar reiknar rétt þá er hér verið að tala um 750 til 1.850 störf næstu fimmtán mánuði. Það munar um minna. „Þetta býr ekki eingöngu til ný störf í framkvæmdunum sjálfum heldur getum við vegna hennar staðið vörð um fjölda starfa innan Isavia. Innspýtingin mun einnig hafa jákvæð áhrif á Suðurnesjunum því margir sem þar búa starfa hjá okkur auk þess að til verður fjöldi afleiddra verkefna á svæðinu,“ segir forstjóri Isavia.

Þetta eru góðar fréttir. Leiðararahöfundur skrifaði í síðustu viku, og fjallaði m.a. um það í Bítinu á Stöð 2 í vikunni, að Suðurnesin hafi ekki fengið þá athygli og aðgerðir í síðustu kreppum sem svæðið hefur upplifað, þegar Varnarliðið fór með manni og mús, bankahrun og fall WOW. Allt kreppur sem höfðu mikil og djúpstæð áhrif á samfélagið á Suðurnesjum á síðustu fimmtán árum. Þá er rétt að geta að fleiri aðgerðir eru í pípunum á svæðinu og nokkrar þegar komnar í gang, fjárfrekar framkvæmdir á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli, innspýting í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, framkvæmdir við hafnargerð, í vegamálum og fleira eins og sjá má í frétt í blaðinu á bls. 2, þar er upptalning á hluta þeirra. Þessar fréttir um aðgerðir á Suðurnesjum, á skrýtnustu tímum sem núlifandi Íslendingar hafa lifað, eru ánægjulegar og þakkarverðar.

Víkurfréttir hafa ekki farið varhluta af afleiðingum veiru með tilheyrandi falli á auglýsingamarkaði en viljum þakka þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hafa hjálpað okkur síðustu þrjár vikur. Við höfum brugðist við með jákvæðum hætti og þetta blað, sem þú lesandi góður ert að lesa, er það þriðja í röðinni sem við gefum út eingöngu rafrænt. Sjötíu og fjórar (já, 74) blaðsíður eru í þessu páskablaði og þar er að finna skemmtilegt efni og viðtöl við sextíu Suðurnesjamenn. Í þesssu rafræna blaði er líka ljósmyndasýning Hilmars Braga okkar, Yfirsýn. Hún var eiginlega fórnarlamb veirunnar því sýningin lokaðist inni í Bókasafni Reykjanesbæjar. Hilmar sýnir ykkur myndirnar og fjallar um þær í myndskeiði. Mjög skemmtilegt. Sem sagt, nóg af lesefni næstu daga fyrir ykkur. Njótið vel!

Í blaðinu er m.a. viðtal við fráfarandi forseta bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar, Ólaf Þór Ólafsson. Hann var kvaddur á bæjarstjórnarfundi í síðustu viku og þar hældi bæjarstjórnarfólk Óla á hvert reipi og þakkaði honum fórnfús störf. Ólafur hefur verið í bæjarpólitík í Sandgerði og nú sameinuðu sveitarfélagi Suðurnesjabæjar í átján ár. Hann er farinn til starfa sem bæjarstjóri í Tálknafirði og tekst á við nýjar áskoranir. Óli hefur alla tíð haft mikinn áhuga á samfélaginu og segir skemmtilega frá því í viðtali í þessu blaði. Eitt af því sem hann ræðir er til dæmis að sameining Sandgerðis og Garðs, sem margir töldu að aldrei gæti orðið, á uppruna sinn í fyrirpartý eftir aðalfund hjá Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir ekki svo löngu síðan. Óli er frábær gaur og það er gott að vita að svona fólk eins og hann skuli gefa sig í starf fyrir sveitarfélagið sitt. Samfélög þurfa fólk eins og Óla. Það var líka gaman að upplifa andann á bæjarstjórnarfundi í Suðurnesjabæ. Hann var góður og ljóst að það er verið að vinna gott starf í þessu nýja sameinaða sveitarfélagi suður með sjó. Með íþróttafélögin Víði og Reyni hljóta íbúar Suðurnesjabæjar að eiga eitthvað í Víði Reynissyni, einum af þremenningunum sem hittir okkur daglega á COVID-19-fundum. Þeir hlýða Víði (Reynis) og við reyndar öll.

Í lok þessa pistils vil ég hvetja Suðurnesjamenn að vera duglega að láta okkur vita af góðum málefnum og fólki til að fjalla um í Víkurfréttum. Nú eru sögulegir tímar og Víkurfréttir vilja endilega fá myndefni frá Suðurnesjafólki þar sem það lýsir lífi sínu á tímum COVID-19. Segið okkur skemmtilegar sögur eða sýnið okkur frá því sem þið eruð að fást við þessa dagana. Þið getið notað snjallsíma eða myndavélar til að taka upp efnið.

Það er margt gott í gangi á veirutímum og framtíðin er björt þó svo við höfum verið stoppuð aðeins um stund.

Góðar stundir og gleðilega páska!