Bygg
Bygg

Pistlar

Stafnes KE í aðalhlutverki
Stafnes KE við tökur kvikmyndarinnar The Secret Life of Walter Mitty. Myndatökuliðið er í slöngubátnum. VF-mynd: Hilmar Bragi Innfelldar myndir úr kvikmyndinni.
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
fimmtudaginn 23. september 2021 kl. 09:54

Stafnes KE í aðalhlutverki

AFLAFRÉTTIR Á SUÐURNESJUM

Í síðsta pistli var talað um nýjan bát sem kom til Sandgerðis sem heitir Addi Afi GK. Gamli Addi Afi GK var seldur til Blikabergs ehf. en hann var þar ekki lengi því að útgerðarfélagið 1762 ehf. hefur keypt bátinn og heitir hann núna Sigrún GK 97, með heimahöfn í Sandgerði.

Sigrún GK 97 er núna staðsett á Skagaströnd og planið er að byrja með bátinn á handfærum þar en áður en þessi bátaskipti fóru fram var Sigrún GK, sem þá hét Addi Afi GK, á handfærum frá Skagströnd.

Og aðeins meira varðandi Adda Afa GK, því eins og greint var frá í síðsta pistli að þá fór nýi Addi Afi GK á sjó frá Sandgerði á línuveiðar og gekk fyrsti túrinn mjög vel hjá honum. Í þeirri veiðiferð kom báturinn með um 1,6 tonn af ýsu og hluti af þeirri ýsu var seld til Dóra sem gerir út Guðrúnu Petrínu GK.

Dóri gerir einn besta harðfisk landsins og ansi ánægjulegt að fiskurinn sem Addi Afi GK kom með eftir veiðiferð frá heimahöfn hafi endað sem harðfiskur hjá Dóra en hann selur harðfiskinn undir nafninu Stafnes og mæli ég alveg hiklaust með honum.

Og talandi um þetta nafn, Stafnes. Það nafn þekkja nú allir sjómenn á Suðurnesjum því að þetta nafn var á nokkrum bátum sem réru frá Keflavík og Sandgerði. Fyrsta Stafnes var GK 274 og var 56 tonna eikarbátur, var skráður í Garði en réri að mestu frá Sandgerði frá 1963 til 1966, þegar hann fékk nafnið Stafnes KE 38 og var með því nafni til ársins 1978.

Árið 1982 keyptu Hilmar Magnússon og Oddur Sæmundsson stálbátinn Ásþór RE og fékk hann nafnið Stafnes KE 130. Var þessi bátur mikill aflabátur og var Oddur skipstjóri á bátnum, hans aðalveiðarfæri voru net en hann landaði að langmestu leyti í Sandgerði og Keflavík.

Árið 1988 lét hann smíða fyrir sig nýjan bát í Noregi sem meðal annars var með útbúnað til frystingar og líka til nótaveiða á síld en árin á undan var gamla Stafnes KE á síldveiðum á haustin.

Útgerð þess báts gekk ekki nægilega vel og voru því bátaskipti gerð árið 1992, þannig að nýja Stafnes KE fór til Ólafsfjarðar og í staðinn tók Oddur stálbát sem fékk nafnið Stafnes KE og á þeim báti þá réri Oddur á til ársins 2004 þegar að hann hætti með bátinn og hann var seldur í brotajárn.

Á árunum á milli 1990 og 2000 réri Oddur gríðarlega mikið á bátnum og var annar netabátur í Sandgerði, Bergur Vigfús GK, sem Grétar Mar Jónsson var skipstjóri á og þessir tveir skipstjórar eru það sem kalla mætti netakóngar Íslands. T.d. árið 1998 áttu báðir bátarnir metár því aflinn hjá báðum bátum fór yfir 3.000 tonn, og það allt á netum, og síðan þá hefur enginn netabátur á Íslandi veitt jafn mikið yfir heilt ár og þessir tveir gerðu.

Reyndar var eitt af síðustu verkefnum sem Oddur lét þennan bát í, að hann var leigður til þess að vera „leikari“ í kvikmyndinni The Secret Life of Walter Mitty sem Ben Stiller leikari og leikstjóri gerði.  Myndin var af að mestu tekin upp á Íslandi og Stafnes KE var þar í ansi stóru hlutverki. 

Í þessu hlutverki bátsins var útliti hans breytt þannig að hann leit hörmulega út, ef þannig má að orði komast, en eftir að leigunni var lokið var bátnum siglt upp í slippinn í Njarðvík og hann allur málaður og gerður fínn og flottur og það allt var borgað af þeim sem leigðu bátinn.

Þrátt fyrir að báturinn væri svona fínn og flottur þá réri báturinn aldrei til fiskveiða eftir þetta og Oddur Sæmundsson, þessi mikli aflaskipstjóri, lést árið 2020.