Bygg
Bygg

Pistlar

Skipasmíðar á Akureyri
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 1. október 2021 kl. 14:23

Skipasmíðar á Akureyri

Oft hugsa ég meðan ég sit og skrifa: „Ætli einhver lesi þessi pistla mína um sjávarútveginn á Suðurnesjum?“ Og já, ég fæ ansi oft svör við þessum vangaveltum mínum og það kom vel fram eftir að síðasti pistill birtist en ég fékk ansi góð viðbrögð við honum út af tengingunum sem mér tókst að gera. Finnst alltaf gott að fá staðfestingu á að þetta sé lesið.

Allavega núna er ég staddur á Akureyri og skrifa þennan pistil og tenging Akureyrar við Suðurnesin er nú nokkuð mikil, þá aðallega vegna þess að nokkrir togarar og bátar sem voru gerðir út frá Suðurnesjum hafa verið smíðaðir á Akureyri. 

Sem dæmi má nefna að frystitogarinn Hrafn GK sem var gerður út frá Grindavík hét upprunalega Sléttanes ÍS og sá togari var smíðaður á Akureyri. Nokkrir stórir togarar og loðnubátar voru smíðaðir á Akureyri og einn af fyrstu stóru togurunum sem var smíðaður á Akureyri fór til Sandgerðis og fékk þar nafnið Guðmundur Jónsson GK 475. Var togarinn hannaður til þess að stunda veiðar með nót á loðnu og stundaði hann loðnuveiðar fyrstu árin sem hann var gerður út frá Sandgerði. Kom togarinn til Sandgerðis árið 1975 en hann var ekki gerður út nema í um þrjú ár, þá var hann seldur til Vestmannaeyja og fékk þar nafnið Breki VE.

Þegar Guðmundur Jónsson GK var svo til klár á Akureyri sendi Rafn ehf., sem átti togarann, veiðarfæri og fleira sem var ekið frá Sandgerði og til Akureyrar. Þá óku tveir bílstjórar hjá Rafni ehf. sem voru hjá Rafni samanlagt í um 50 ár. Þetta voru Bóbó og Guðmundur Sveinsson, eða Gummi eins og hann er kallaður. Gummi er bróðir pabba og hann fór nokkrar ferðir þarna árið 1975 með efni í togarann – og þá var nú leiðin norður til Akureyrar ekki eins þægileg og er núna. Þá þurfti t.d. að aka fyrir Hvalfjörð og Borgarfjarðarbrúin var ekki komin, leiðin var að mestu leyti allt malarvegir.  Oft hugsar maður þetta þegar ég ek norður.

Hitt stóra skipið sem var smíðað á Akureyri, og fór líka til Sandgerðis, var að hluta til í fyrstu hálfgerður vandræðagemsi því Skipasmíðastöðin á Akureyri hafði smíðað skrokk af loðnubát sem gat borið um 820 tonn af loðnu en erfiðlega gekk að selja bátinn og smíðasaga Þórunnar Hyrnu EA var ansi sérstök. Skrokkurinn var smíðaður í Póllandi árið 1977 en var síðan dreginn til Íslands og fór þá til Akraness þar sem Þorgeir og Ellert lengdi skrokkinn um sex metra og byggði yfir hann. Í mars 1978 var skrokkurinn dreginn til Akureyrar en þar sem skrokkurinn var ekki seldur þá var dútlað í skipinu fram til ársins 1981 og hét báturinn þá Þórunn Hyrna EA 42. Seinna á árinu 1981 keypti fyrirtækið Sjávarborg hf. í Sandgerði bátinn og voru þá gerðar breytingar á skipinu sem meðal annars sneru að því að báturinn gæti stundað nótaveiðar en nótakassann var síðan hægt að hífa í burtu úr bátnum og var þá hægt að nota Sjávarborg GK til trollveiða.

Sjávarborg GK var gerð út frá Sandgerði í rúm tíu ár og á þessum tíu árum þá veiddi báturinn mjög vel og var iðulega með aflahæstu loðnubátunum. Meðan báturinn var ekki á loðnu þá réri Sjávarborg GK á trolli og rækju og frysti þá rækjuna um borð.

Síðan var minni skipasmíðastöð, eða bátastöð, á Akureyri og var það Vör HF á Akureyri. Vör hf. smíðaði ansi marga 30 tonna eikarbáta og nokkrir þeirra voru gerðir út frá Suðurnesjum, þá að mestu á dragnótaveiðum. Þetta voru t.d. Haförn KE, Eyvindur KE, Ægir Jóhannsson ÞH, Sæljón RE og Reykjaborg RE. Þess má geta að Ægir Jóhannsson ÞH var í eigu sama útgerðarfélags og átti Sjávarborgina GK sem minnst er á að ofan. 

Ef horft er í nútímann þá er nú minna um tengingar því enginn bátur hefur verið smíðaður þar ansi lengi sem hefur farið til Suðurnesja. Þó er það nú þannig að slippurinn á Akureyri hefur þjónustað báta og togara sem gerðir hafa verið út frá Suðurnesjum.

Það er þó þannig að Samherji á orðið svo til alla þá stóru báta og togara sem landa á Akureyri og enginn þeirra landar á Suðurnesjum, nema ef undan er skilið Harðbakur EA. Harðbakur EA er 29 metra togari og samskonar og Áskell ÞH og Vörður ÞH.

Myndin sem fylgir með er frá Reyni Sveinssyni, föður mínum, og sýnir hún Sjávarborgina GK við bryggju við Suðurgarðinn að landa loðnu. Og ján loðnan er fiskur sem því miður kemur ekki lengur til hafna á Suðurnesjum.