Pistlar

Seinni bylgjan
Miðvikudagur 1. júlí 2020 kl. 10:18

Seinni bylgjan

Landið okkar hefur opnað á nýjan leik. Það gleðjast flestir yfir því enda mjög mikilvægt að hjólin fari að snúast. Nú þegar hefur hlotist gríðarlegt efnahagslegt tjón, þúsundir án atvinnu og ástandið í mörgum sveitarfélögum, t.d Reykjanesbæ, er afar slæmt. Mikilvægt er því að opna landið og þó svo ég skilji þá vel sem myndu kjósa að hafa hér lokað lengur þá einfaldlega myndi það skaða okkur enn þá meira.

Haustið mun sýna okkur svart á hvítu hversu alvarleg staðan er í raun og veru þegar þúsundir fara á atvinnuleysisbætur og einhver fyrirtæki gefa upp öndina. Því verðum við að reyna að milda höggið og koma okkur af stað sem fyrst. Þetta er áhætta sem er þess virði að taka og möguleikar okkar í framhaldinu eru miklir ef þetta gengur allt saman vel. Lönd sem fóru afar illa út úr þessari veiru eins og Spánn, Ítalía og Frakkland eru að opna sem dæmi en með breyttu sniði en áður. Óvissan er reyndar allsráðandi núna þegar ferðamenn eru að taka fyrstu skrefin eftir COVID-19 en óhætt er að segja að þetta fari ágætlega af stað hjá okkur. Fagnandi gestir okkar senda jákvæð skilaboð út í heim í gegnum samfélagsmiðla og það er alveg á tæru að fjöldi fólks er tilbúið til þess að ferðast. Allir þurfa að sýna tillitssemi og aðgát, fara eftir öllum þeim reglum sem eru í gildi og almenn skynsemi þarf að vera til staðar. Hræðslan við „seinni bylgjuna“ er eðlileg enda ljóst að veiran er hvergi nærri farin og aukning tilfella eru á heimsvísu m.a vegna stóraukinnar skimunar.

Það er því ljóst að við verðum að fara að öllu með gát og skimun á landamærum er öflugt tól sem á þessum fyrstu dögum virðist vera að virka vel. Það eiga klárlega eftir að koma upp einhver smit en við verðum að læra að lifa með veirunni a.m.k á meðan það er ekki til bóluefni. Treysti á yfirvöld og treysti almennt á skynsemi þeirra sem hingað koma (jafnt Íslendinga á heimleið og ferðamanna). Við erum nefnilega á eyju, getum stjórnað landamærunum vel og haft betri stjórn á hlutunum. Getum greint smit snemma og þar af leiðandi gert viðeigandi ráðstafanir, mál rúmensku þjófanna í byrjun síðustu viku er gott dæmi um það. Ömurlegt reyndar að ágætir lögreglumenn hafi smitast af veirunni enda var ekki vitað að þeir væru nýkomnir til landsins. Skimun ætti í raun að vera eini kosturinn fyrir þá sem hingað koma, eingöngu möguleikinn á sóttkví því það eru einfaldlega alltaf til skemmd epli sem ekki er treystandi.

Gleymum því samt ekki að mikill meirihluti þeirra sem hingað koma er gott fólk sem vill einfaldlega njóta þessa einstaka lands okkar. Tökum vel á móti því.