Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Sameinaðir Suðurnesjamenn
Laugardagur 22. febrúar 2020 kl. 07:45

Sameinaðir Suðurnesjamenn

„Oh, I am sorry. Am I too late for my flight? Flying to New York. I am so sorry. I went to the wrong airport“ !!!!!

Bandarísk kona í viðskiptaerindum. Henni er vorkunn. Hvernig á hún að þekkja muninn á Reykjavik Airport og Reykjavik-Keflavik International Airport. Steini á hótelinu má eiga það að hann nennti einn manna að röfla yfir þessu rugli á sínum tíma. Af hverju má flugvöllurinn ekki bara heita Keflavik Airport? Þú getur flogið á John F. Kenndy og La Guardia og veist að þú ert að lenda í stærstu borg vesturlanda, New York. Flugvöllurinn þarf ekki að heita New York Airport.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Hvernig átti þessi ágæta kona að fatta það fyrr en hún var komin í flugstöðina í Vatnsmýri að þaðan færi hún ekki neitt nema til Ísafjarðar, Akureyrar eða Grænlands.

Suðurnesjamenn hafa barist fyrir tvöföldun Reykjanesbrautarinnar frá aldamótum og áttu einu sinni bestu fæðingardeild landins á Sjúkrahúsinu í Keflavík. Nú þegar Þorbjörn sem átti að vera löngu dauður lætur á sér kræla vakna upp spurningar um raforkuöryggi á Suðurnesjum. Enn fleiri spurningar vakna þegar flugslys verður á Keflavíkurflugvelli. Í baksýnisspeglinum er ljóst að uppskera úr sameiginlegum sjóðum landsmanna á síðastliðnum áratugum er ansi rýr. Herinn farinn, steinsteypukumbaldi sem átti að vera álver, svikamylla Teslu-Magga og gjaldþrota hafnarmannvirki. Til að kóróna allt saman eru fjámunir sem fengust fyrir eignasölu á Ásbrú notaðir annars staðar.

Í síðasta tölublaði Víkurfrétta stökk fram á atkvæðaveiðar SkattaBensabaninn, formaður Viðreisnar. Það þarf pening í sjúkrahúsið, ljúka tvöföldun Reykjanesbrautar og halelújah. Þetta gat hún ekki gert þegar Viðreisn var í ríkisstjórn svo upptekin var hún af því að hálshöggva Bensa.

Nóg komið. Suðurnesjamenn þurfa að sameinast óháð flokkslínum. Okkar eigið kjördæmi. Sameinaðir Suðurnesjamenn – flokkur Suðurnesjamanna með einföld verkefni til næstu fjögurra ára: Reykjanesbraut – HSS – Suðurnesjalína 2 og vitanlega Keflavik Airport.

Margeir Vilhjálmsson