RVK Asian
RVK Asian

Pistlar

Raunveruleiki eða skáldsaga
Laugardagur 21. mars 2020 kl. 07:39

Raunveruleiki eða skáldsaga

Við lifum á skrýtnum tímum. Hvern hefði órað fyrir því að alheimsfaraldur myndi geisa árið 2020? Að þjóðarleiðtogar myndu keppast við að loka landamærum sinna þjóða? Að heilbrigðiskerfi færu á hliðina eitt af öðru við það eitt að útrýma veiru sem á upptök sín hjá leðurblökum í Kína? Ástandið í dag er eitthvað sem við höfum í besta falli lesið í vísindaskáldsögu. Allir eru hræddir en enginn getur spáð fyrir um afleiðingar. Hræðslan er ekki eingöngu bundin við veiruna sjálfa heldur einnig  við þær ófyrirséðu afleiðingar sem hún er að hafa og mun hafa á daglegt líf í framtíðinni. Þegar þetta er skrifað hafa tæplega 7.000 manns  látið lífið á heimsvísu í þessum hörmungum og ekki sér fyrir endann á. Þess utan eru efnahagslegar afleiðingar gríðarlegar. Ekki skrýtið að fólk velti fyrir sér hvort annað efnahagshrun sé óumflýjanlegt. Við vitum þó að flest þjóðarbú eru betur í stakk búin til að takast á við niðursveiflu í efnahagslífinu en í hruninu árið 2008. Fjármálakerfi heims eru í grunninn ekki að hrynja. Fólk er ekki að tapa aleigunni, eða hvað?

Fyrir utan augljósu áhrif veirunnar, samdrátt í flugi og ferðaþjónustu, þá getum við ekki horft framhjá þeirri staðreynd að einkaneysla og fjárfesting fyrirtækja og einstaklinga mun dragast verulega saman næstu mánuði og atvinnuleysi margfaldast. Ef við skoðum til samanburðar hryðjuverkaárásirnar sem áttu sér stað í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 þá létust tæplega 3.000 manns á einum degi. Efnahagsleg áhrif urðu m.a. þau að farþegafjöldi í flugi minnkaði um 30% á heimsvísu. Það tók um þrjú ár að ná upp sama umfangi í farþegafjölda. Atburðirnir og aðgerðirnar sem við erum að verða vitni að í dag eru margfalt umfangsmeiri. Til marks um það þá eru flugfélög að tilkynna um 75–90% samdrátt í framboði flugsæta á næstu mánuðum. Endanlegar afleiðingar veirunnar eiga eftir að koma í ljós en líklegt er að sá fjöldi mannslífa sem tapast í baráttunni muni margfaldast. Samhliða munu efnahagskerfi  bogna. 

Heilbrigðiskerfi og almannavarnir eru það sem skiptir mestu máli núna. Því betur sem hver þjóð er í stakk búin til þess að takast á við þessa vá, því færri dauðsföll og minna tjón mun efnahagslífið bíða. Í augnablikinu veit enginn hvað framtíðin ber í skauti sér og það er ljóst að margt óvænt á eftir að koma á daginn. Því er lykilatriði að samfélög standi saman, á sama hátt og þjóðir heims þyrftu að gera en virðast vera ófærar um. Mikilvægast af öllu er að komast fyrir útbreiðslu veirunnar og að fleiri þúsundir til viðbótar muni láta lífið. Efnahagslífið mun finna sinn farveg. Það gerir það alltaf.

Inga Birna Ragnarsdóttir.