Pistlar

President Prump
Þriðjudagur 9. júní 2020 kl. 15:26

President Prump

Það geisar stríð í Bandaríkjum Norður-Ameríku, borgarastyrjöld sem er ólík öðrum stríðum sem við þekkjum. Stríð sem snýr að kynþáttafordómum. 45. forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, sem kosinn var til embættis 20. janúar árið 2017 hefur kallað þetta yfir bandarísku þjóðina með sínum orðum og athöfnum. 

Eftir höfðinu dansa limirnir. Frá því Trump sór embættiseið sem forseti Bandaríkjanna hefur hann brugðist á ofsafenginn hátt gegn öllu sem honum mislíkar hverri stundu. Sagan sýnir okkur án nokkurs vafa að Donald Trump er fullur af kynþáttafordómum og hefur markvisst egnt saman ólíkum kynþáttum í eigin þágu. Þessi fullyrðing er ekki frá sjálfri mér komin. Fjöldi greina hafa verið skrifaðar í blöð eins og New York Times, Fortune og fjölda annarra virtra tímarita sem hafa rannsakað feril hans undanfarna áratugi. Mynstrið er greinilegt og ekki fallegt. Heimildir um kynþáttafordóma ná alveg til byrjunar áttunda áratugarins þegar Trump stóð í lagadeilu þar sem hann neitaði svörtu fólki að leigja íbúðir í hans eigu. Á níunda áratugnum hvatti Trump opinberlega til upptöku dauðarefsingar í tengslum við mál fimmmenninga sem áttu að hafa nauðgað konu sem var að skokka í Central Park. Trump keypti heilsíðuauglýsingar í blöðum til að koma skoðun sinni á framfæri. Þessir fimmenningar voru bæði af suður-amerísku og afrísku/amerísku bergi brotnir og voru að lokum hreinsaðir af allri sök eins og frægt er orðið. Hvet ykkur til þess að horfa á myndina áhrifaríku „When They See Us“ sem gerð var um málið. Trump stóð einnig fyrir herferð gegn Obama á sínum tíma sem snerist um að hann væri frá Afríku en ekki frá Hawaii til að véfengja þjóðerni hans og grafa þannig undan Obama. Í aðdraganda eigin kosningabaráttu rægði hann Mexíkóbúa og boðaði alls kyns boð og bönn til höfuðs múslimum. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Ofangreind eru bara örfá dæmi af löngum lista, mjög löngum. Svo ég endurtaki mig, eftir höfðinu dansa limirnir. Ofsinn og hatrið sem Trump sýnir af sér setur tóninn og lýsir sér núna síðast með því hvernig lögreglan myrti George Floyd með köldu blóði. Á meðan Bandaríkin velja sér siðblindan kynþáttahatara sem forseta sem kyndir undir misrétti og valdbeitingu í orðum sínum og athöfnum þá er erfitt að sjá að það muni skapast friður innan landsins.

Trump er líklegur til að skapa áframhaldandi ófrið og ímyndaðar ógnir í aðdraganda næstu forsetakosninga í anda myndarinnar „Wag the Dog“ til að þjappa þjóðinni saman gegn ímynduðum óvini og tryggja sér endurkjör. Maður getur bara vonað að kjósendur í USA komi auga á þetta mynstur í gegnum allan skarkalann og fréttavaðalinn sem flæðir í gegnum alla miðla eins og illa lyktandi gas. Í nóvember geta Bandaríkjamenn breytt þessari þróun og kosið sér forseta sem kann að fara með valdið. Forseta sem er að lágmarki mennskur. Forseta sem er færari að öllu leyti en Donald Prump.

Inga Birna Ragnarsdóttir.