Völundarhús
Völundarhús

Pistlar

Óheppnasta rjúpa í heimi?
Sunnudagur 12. desember 2021 kl. 06:01

Óheppnasta rjúpa í heimi?

Á hverju ári þrammar fjöldi manna til veiða á rjúpu, drifnir áfram af þeirri trú að ekki komi jól nema rjúpa sé á borðum. Fyrir nokkru síðan fékk ég að fljóta með veiðimanni á fjall og eltast við þessa jólasteik.

Þar sem að undirritaður telur þennan fiðurfénað ekki á borð berandi og allra síst á jólum, vil bara léttreyktan lambahrygg á diskinn minn.

Þannig að í þessari veiðiferð ætlaði ég bara að skjóta á þessi grey með myndavélinni, sem ég og gerði. Einmitt þar sem ég geng fram á eina rjúpuna í þessu fína færi, geri mig kláran, lyfti myndavélinni og ýti á takkann. Um leið kveður við skothvellur, mér dauðbrá og rjúpan steinlá.

Þó svo það sé svakalegur kraftur í Canon-inum þá er hann nú ekki svona rosalegur. Þannig lá í að veiðimaðurinn hafði læðst aftan við mig án þess að ég tæki eftir og lét vaða á nákvæmlega sama augnabliki.

Það má því með sanni segja að rjúpugreyið sé sennilega það óheppnasta sem uppi hefur verið með því að láta skjóta sig bæði með myndavél og byssu á sama augnablikinu ...

Ég leyfi mér að stórefast um að svona mynd geti maður náð aftur þó maður reyndi.