Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Nú er lag Svandís!
Fimmtudagur 13. maí 2021 kl. 07:57

Nú er lag Svandís!

Það er óhætt að taka undir áskorun allrar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar sem skorar á heilbrigðisráðherra að tryggja starfsemi nýrrar heilsugæslu á Suðurnesjum í síðasta lagi 1. október 2021. Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra hefur sagt það í svari við fyrirspurn Vilhjálms Árnasonar, þingmanns um hvort ekki sé hægt að flýta opnun nýrrar heilsugæslu með því að semja við einkaaðila, að það sé ekki í boði. Það hefur gefist mjög vel í höfuðborginni og á það benti þingmaðurinn. Nei, ráðherra var ekki á því en nú hefur öll bæjarstjórn Reykjanesbæjar sammælst í bókun sem er áskorun á ráðherrann um að gera betur.

Fyrir liggur að byggja á nýja heilsugæslustöð en slíkt verkefni tekur allt að fimm ár, slíkur er framkvæmdahraðinn. Verkefnið hér suður með sjó er mjög aðkallandi en á Suðurnesjum búa 28 þúsund manns og hér ættu að vera þrjár heilsugæslustöðvar því miðað er við að ein stöð geti þjónað sjö til níu þúsund manns. Um fjögur þúsund íbúar á Suðurnesjum sækja heilsugæsluþjónustu til höfuðborgarsvæðisins, flestir eru með heimilislækni, eitthvað sem Suðurnesjamenn hafa ekki upplifað í marga áratugi. „Bæjarstjórn lýsir því jafnframt yfir að hún muni beita öllum tiltækum ráðum með hagaðilum svo af þessu verði enda er sú staða sem uppi er í heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum ekki boðleg. Það ætti ekki að vera neinum erfiðleikum bundið að finna tímabundið húsnæði fyrir heilsugæslu á meðan unnið er að langtímaúrræði. Íbúar á svæðinu eiga rétt á að þjónustan verði bætt án tafar,“ segir í bókun hennar frá síðasta bæjarstjórnarafundi. Hún er í raun bara að biðja um tímabundið úrræði þó svo það ætti að vera langtímaúrræði.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í umræðum á bæjarstjórnarfundinum kom fram hjá bæjarfulltrúum að þessi óboðlega staða í heilbrigðismálum hafi verið viðvarandi á Suðurnesjum í marga áratugi. Hvernig í ósköpunum má það vera. Þetta hefur verið mál málanna á Suðurnesjum nær alla tíð, við getum farið hálfa öld aftur í tímann, árið 1980, 1990, 2000 og 2010 og enn er staðan mjög ófullnægjandi. Ekki er þó bara hægt að kenna Vinstri grænum um það þó Svandís eigi að sjá sóma sinn í því að laga þetta. Hún hefur samt tækifæri. Það eru að koma kosningar. Þetta kæmi sér örugglega ekki illa fyrir Sandgerðinginn Hólmfríði Árnadóttur, splunkunýjan oddvita VG í Suðurkjördæmi í komandi kosningum og kosningabaráttu. Á þessum tíma hafa verið margir heilbrigðisráðherrar úr mörgum flokkum. Hvernig stendur á því í alvöru að okkur hefur ekki tekist að ná fram meiri og betri heilbrigðisþjónustu á svæðinu. Hún hefur í raun bara versnað því skurðstofum var lokað og starfsemi fæðingardeildar sem þótti ein sú besta á landinu var minnkuð verulega, m.a. út af lokun skurðstofu. Og hvernig stendur líka á því að mönnun lækna á heilsugæslunni er með sama glataða
„sísteminu“ og verið hefur í áratugi. Það vita allir að fyrirkomulagið er ekki gott og því þarf að breyta. Það er leiðinlegt að segja það en stjórnunarteymi stofnunarinnar kemur hér til vinnu að morgni en keyrir heim til sín út fyrir Suðurnes alla sína vinnudaga. Kannski væri lag ef Suðurnesin fengju heimamann í framkvæmdastjórastarfið en það eru líklega minni líkur á því en að Svandís samþykki einkarekna heilsugæslustöð.

Einkaaðilar á svæðinu hafa boðið fram hentugt húsnæði sem hægt er að innrétta og gera tilbúið til starfsemi heilsugæslu á hálfu ári. Segjast geta mannað starfsemina með góðu heilbrigðisfólki.

Nú er lag Svandís Svavarsdóttir.