Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Nóvember skandalar
Laugardagur 30. nóvember 2019 kl. 08:48

Nóvember skandalar

Nóvember mánuði fer senn að ljúka og desember með öllum sínum kræsingum og ljósadýrð tekur nú við. Jólamánuðurinn sjálfur er að bresta á með tilheyrandi gleði eða ógleði fólks.

Jólin komu þó snemma hjá fjölmiðlum í ár rétt eins og í fyrra. Það virðist nefnilega vera orðin hefð að í nóvember mánuði komi upp stór hneykslismál a.m.k. ef við skoðum síðustu tvö ár en þá hafa komið upp tveir af stærri „skandölum“ síðari ára. Klaustursmálið var í fyrra en þá létu mökk ölvaðir Miðflokksmenn allt og alla heyra það með einkar ósmekklegu orðbragði. Ekki einu sinni selir sluppu. Refsing þeirra Miðflokksmanna var mikil en flokkurinn er nú að mælast með rétt rúmlega 17% fylgi í könnunum og er nú næst stærsti flokkurinn. Hvað segir þetta um hina flokkana? Þetta mál er nú nánast gleymt en það voru þeir Samherjamenn sem sáu til þess að nóvember 2019 myndi blessunarlega standa undir nafni. Skandall tengdur við mútur. Tveir ráðherrar í Namibíu hafa sagt af sér og fólk flykkist út á götu og mótmælir af krafti. Hér heima voru viðbrögð stjórnarliða í rólegri kantinum enda vilja menn bíða eftir niðurstöðu rannsóknar áður en menn láta gamminn geysa en það er reyndar álíka skítalykt af þessu máli og kom úr ofni United Silicon. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar voru fyrirsjáanleg, þar reyna menn að slá sig til riddara, vinna sér inn pólitísk stig og gráta krókódílatárum fyrir blessað fólkið í Namibíu. Öll kurl eru ekki komin til grafar í þessu máli en framhaldið verður mjög fróðlegt. Fiskidagurinn mikli er samt ekki í hættu.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Það sem þessi tvö mál eiga sameiginlegt er það að mikil reiði greip um sig á samfélagsmiðlunum. Þar létu menn allt flakka og mikil keppni fór fram á því hver væri reiðastur og hefði hneykslast mest. Hallgrímur Helgason sigraði. Mótmæli voru svo haldin á Austurvelli vegna beggja mála,  keimlík reyndar (sömu ræðumenn og nánast sömu ræðurnar) en betra veður var núna 2019. RÚV sagði fjölda mótmælenda í þúsundum en MBL sagði þar nokkur hundruð. Hvaða skandall poppar upp í nóvembermánuði 2020? Er ekki kominn tími á okkur Suðurnesjamenn?