Sporthúsið
Sporthúsið

Pistlar

Nafli alheimsins
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 18. júlí 2021 kl. 08:21

Nafli alheimsins

„Hvað er það með þetta Nafla alheimsins kjaftæði alltaf í þér?“

Þetta var spurning sem ég fékk fyrir nokkru síðan og auðvitað var ég snöggur að svara því til að auðvitað væri þetta Nafli alheimsins og allt tal um eitthvað annað væri bara helber vitleysa.

Hér skal nú reyndar tekið fram að upp úr þessari spurningu og svo svarinu á eftir upphófst hvorki rifrildi eða slagsmál, enda hvorutveggja hent fram í hinu mesta bróðerni.

Ég verð að viðurkenna það að þessi spurning hreyfði aðeins við mér og ég fór að pæla aðeins í þessu „Nafla alheimsins“ kjaftæði mínu: Af hverju er maður alltaf að skrifa svona eins og að enginn annar staður sé til sem taki „Nafla alheimsins“ (Grindavík) fram?

Þá rifjaðist upp fyrir mér þegar ég tók að mér að vera bílstjóri fyrir hana móður mína vestur á firði fyrir nokkrum árum síðan, um Hvítasunnuhelgi, þar sem að hún var boðin í fermingarveislu á æskustöðvum sínum Flateyri við Önundarfjörð. Veisluskyldum var sinnt ásamt því að þvælast vítt og breitt með þá gömlu.

Nema hvað að þegar við erum að renna af stað suður aftur segir sú gamla: „Þetta var allt svo miklu stærra í minningunni.“ Ég náttúrlega hváði og árétta að þetta hafi nú hvorki stækkað eða minnkað en það sé náttúrlega eðlilegt að hún haldi þetta þar sem að hún sé nú orðin það gömul að hún hafi sjálfsagt verið eitt af vitnunum þegar að skrifað var upp á dánarvottorð fyrir Dauðahafið og þetta geti nú allt verið búið að skolast til í hennar haus.

Það var eins og við manninn mælt, var skammaður eins og hver annar flækingshundur fyrir þessa aðfinnslu en þegar skömmunum lauk segir sú gamla: „Þú veist hvað ég meina, fyrir mér var þetta allur heimurinn. Við lékum okkur hér í fjörunni og um allt plássið og hér upp í hlíðarnar.“

Þessi setning: „Þetta var allt svo miklu stærra í minningunni,“ sat í mér lengi á eftir og gerir reyndar enn – en núna skilur maður þetta kannski betur. Kannski þarf maður að fara í burtu í lengri eða skemmri tíma til að öðlast víðsýni, eða þegar að maður öðlast á einhvern hátt víðsýnina að þá minnki um leið hið hversdagslega umhverfi manns?

Fyrir mér er Grindavík alltaf Nafli alheimsins, hér ólst ég upp og minn leikvöllur er hér út um allar koppagrundir; fótbolti á kirkjulóðinni, leita að kröbbum í fjörunni, sem var að foreldra ráði stranglega bannaður staður og maður skyldi aldrei neitt í því að vera hundskammaður þegar maður kom holdvotur heim og sagðist hafa „dottið í poll“. Það var reyndar ekki mikið um polla svona um hásumar í 20°C hita, maður skilur það í dag hvernig var séð í gegnum mann. Svo var farið hér upp um öll hraun og upp á Þorbjörn, þannig að það var allt undir. Það þótti ekkert tiltökumál að vera staddur uppi á Þorbirni við það að hrekkja múkka og uppgötva að það var kominn „drekkutími“, skondrast heim í hann og þruma svo upp eftir aftur og taka upp þráðinn aftur við að hrekkja múkkann.

Bryggjan var það heilagasta, og hún var bannsvæði en einhvern veginn varð þetta orð „bannsvæði“ afskaplega teygjanlegt hugtak í mínum huga. Einhvern tíman eftir að hafa verið gripinn glóðvolgur á þessu yfirlýsta bannsvæði, þá tilkynnti karl faðir minn mér það, að ef hann myndi grípa mig aftur á þessu yfirlýsta „bannsvæði hans“, þá myndi hann henda mér í sjóinn.

Auðvitað fór þessi yfirlýsing kallsins eitthvað fyrir ofan garð og neðan hjá mér og ekki löngu seinna sveif ég í fallegum boga út í höfnina.

Auðvitað lærði ég helling á þessu. Þó fyrst og fremst það að ég þyrfti að fela mig betur fyrir þeim gamla þegar ég væri á bryggjunni.

Þegar upp er staðið þá eiga allir sinn „Nafla alheimsins“ í sínu hjarta og það er sko alls engin skömm að því að halda merkjum hans á lofti, hvar svo sem fólk er statt undir sólinni.

Ég segi stoltur og stend við það:
Grindavík er „Nafli alheimsins“ í mínu hjarta.