Pistlar

Litið um öxl og horft fram á veginn
Föstudagur 14. ágúst 2020 kl. 07:37

Litið um öxl og horft fram á veginn

Það er gaman að horfa fjörutíu ár aftur í tímann í fjölmiðlun á Suðurnesjum þegar Víkurfréttir fagna 40 ára afmæli 14. ágúst. Þegar við horfum til baka er af mörgu að taka því á þessum tíma höfum við gefið út um tvö þúsund tölublöð af Víkurfréttum og blaðsíðurnar eru nálægt fimmtíu þúsund.

Sá sem þetta ritar byrjaði í blaðamennsku hjá stofnendum Víkur-frétta innan við tvítugt. Blaðið er hugsanlega fyrsta eða alla vega eitt af fyrstu fríblöðum landsins og er arftaki forvera þess, Suðurnesja-tíðinda, sem var selt í lausasölu. Hlutverk Víkurfrétta var það sama, að segja fréttir frá Suðurnesjum en til að byrja með var áherslan lögð á umfjöllun úr Keflavík og Njarðvík. Nafnið er tekið úr seinni hluta nafna bæjarfélaganna og var dreift í verslanir, bensínstöðvar og fleiri staði tvisvar í mánuði. Þar gat fólk náð sér í eintak.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nýir eigendur

Um áramótin 1982–1983 var fyrirtækið Víkurfréttir ehf. stofnað af undirrituðum og Emil Páli Jónssyni og keyptum við blaðið af Prentsmiðjunni Grágás sem hélt þó áfram að sjá um umbrot á því og prenta. Nýir eigendur voru með háleit markmið, það stærsta að gefa blaðið út vikulega og það gerðist skömmu eftir eigendaskiptin og alla tíð síðan hefur blaðið komið út vikulega að undanskildum stuttum tíma þar sem blaðið kom út tvisvar í viku.

Tíu árum síðar fór Emil úr fyrirtækinu og hefur undirritaður ásamt fjölskyldu rekið fyrirtækið síðan. Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, sem hefur starfað hjá fyrirtækinu í 32 ár hefur tekið saman pistil um áhugaverða sögu Víkurfrétta sem sjá má annars staðar í blaðinu.

Miklar tæknibreytingar

Tæknibreytingar hafa verið miklar á þessum fjórum áratugum þar sem stafræn bylting er stærst en hún hefur komið sterkt inn í fjölmiðlun síðustu tvo áratugina og gert líf útgefenda, blaða og fréttamanna mun léttara. Þeir þurfa þó áfram að ná í sitt efni, fréttir og viðtöl en nú er auðveldara að koma því á framfæri. Það hefur verið markmið Víkurfrétta í öll þessi ár að fjalla um menn og málefni á Suðurnesjum. Sambandið við Suðurnesjamenn hefur verið afar gott og gert okkar starf auðveldara því alla tíð höfum við fengið margar ábendingar og margir haft samband og hjálpað okkur að gera blaðið og síðar alla okkar miðla betri. Starfsemi Víkurfrétta óx hægt og bítandi og með tímanum bættust við vefmiðlar, fleiri útgáfur og sjónvarpsmennska. Reksturinn hefur heilt yfir gengið ágætlega og fyrirtækið ber enn sömu kennitölu, á 38. starfsári.

Þegar starfsemin var hvað mest voru nærri tuttugu manns sem komu að útgáfu tveggja blaða Víkurfrétta, á Suðurnesjum og í Hafnarfirði, auk margvíslegrar annarar starfsemi á sviði fjölmiðlunar.

Breytingar á fertugsafmæli

Í upphafi fjörutíu ára afmælisárs voru ýmsar hugmyndir í gangi í tilefni tímamótanna og árið byrjaði vel – en svo kom alheimsveira og setti lífið í annan farveg. Við stóðum frammi fyrir verulegum áskorunum á sama tíma og Pósturinn sagði upp blaðadreifingu en nánast alla tíð hefur Víkurfréttum verið dreift ókeypis í hús og fyrirtæki á Suðurnesjum. Í upphafi COVID-19 ákváðum við að hætta prentun á blaðinu og gefa það út rafrænt. Rekstrarlegar áskoranir á veirutímum voru miklar og því var þessi ákvörðun tekin. Það hefur gengið vel og flest blöðin hafa verið með fimmtán til tuttugu þúsund heimsóknir en áður var blaðinu dreift í 8500 eintökum. Þetta er í takti við mikla stafræna þróun þar sem margir daglegir hlutir fara þar fram eins og flestir þekkja.

Þessi breyting, að hætta prentun, er líklega ein stærsta breyting sem gerð hefur verið í starfsemi útgáfunnar í fjörutíu ár. Það er ljóst að framtíðin í fjölmiðlun er í rafrænum heimi og því ekki líklegt að blaðið verði prentað aftur eins og áður var gert. Það er þó alltaf í skoðun og allir möguleikar skoðaðir en þó ljóst að því verður ekki dreift inn á hvert heimili þar sem Pósturinn hefur gefið það út að slík þjónusta sé ekki lengur í boði. Að stofna dreifingarþjónustu teljum við ekki raunhæfan möguleika og því er þetta veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir. Það er vissulega möguleiki að prenta blaðið og dreifa því á hinum ýmsu stöðum eins og gert var á upphafsárum blaðsins og það er alltaf í skoðun. Rafræn útgáfa hefur hins vegar fært okkur enn meiri tækni og möguleika í blaðaútgáfu sem ekki er hægt á pappír eins og til dæmis með birtingu myndskeiða (video) og fleiri þátta. Þá er plássið nóg í rafrænum heimi og það höfum við nýtt okkur og lagt enn meiri áherslu á að búa til meira og fjölbreyttara lesefni. Því hefur verið vel tekið. Við hvetjum eldri borgara, sem sumir hverjir hafa ekki verið sáttir með þessa breytingu, til að lesa blaðið í spjaldtölvu eða tölvu og taka þátt í þessari miklu tæknibreytingu.

Samkeppnin

Við hjá Víkurfréttum erum hvergi hætt og ætlum að halda áfram þó svo að áskoranir séu ýmsar. Því er ekki að neita að helstu samkeppnisaðilarnir eru samfélagsmiðlar. Það er rétt að vekja athygli á því að þar fer ekki fram ábyrg umfjöllun sem fjölmiðlar sinna, þó margt skemmtilegt komi fram. Samfélagsmiðlar lúta ekki sömu kröfum og íslenskir fjölmiðlar sem þurfa að fara að reglum varðandi virðisaukaskatt. Það skekkir samkeppnisumhverfið verulega. Samfélagsmiðlar eru í eigu stórfyrirtækja úti í heimi sem þurfa ekki að standa skil á neinu úr sínum rekstri hér á landi.

Að lokum vill undirritaður þakka lesendum og samstarfsaðilum að ógleymdum mörgum starfsmönnum sem hafa komið að starfsemi Víkurfrétta. Við vonum að heimsfaraldri ljúki sem fyrst og lífið getið orðið eðlilegt aftur.

Páll Ketilsson
ritstjóri