Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Lífæðin
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 5. september 2021 kl. 08:20

Lífæðin

Mér er það til efs að margir geri sér grein fyrir hversu mikil mannvirki varnargarðarnir við innsiglinguna til Grindavíkur eru og hversu mikla þýðingu þeir hafa fyrir pláss eins og Grindavík eða hvert annað pláss þar sem að aðstæðum væri eins háttað.

Grindavíkurhöfn hefur um langt skeið verið ein öflugasta höfn landsins og eins og gefur að skilja hafa ótal margir hagsmuna að gæta þegar kemur að starfsemi og tilvist hafnarinnar og án hafnarinnar væri sjálfsagt búsetugrundvöllur þar ansi rýr.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eftir því sem að fiskiskip og fiskveiðar hafa þróast í gegnum tíðina og skipin stækkað þá hefur höfnin orðið að gera það líka til þess að vera í stakk búin að geta boðið upp á samkeppnishæfa þjónustu.

Styrkleikar Grindavíkurhafnar voru miklir fyrir en eftir þessar framkvæmdir allar, dýpkun hafnarinnar, dýpkun innsiglingarinnar, endurnýjun viðlegukanta og gerð þessara varnarmannvirkja eru þeir orðnir gríðarlegir.

Höfnin og öll umgjörð hennar eru ekkert í líkingu við það sem áður var hvað varðar aðgengi og þvíumlíkt. Í þessu „sem áður var“ má kannski segja að liggi veikleikar hafnarinnar. Það er að segja að þeir liggja í ímyndarvanda um það hvernig hún var, talin erfið og illfær til innsiglingar.

Eftir allar þessar breytingar undanfarinna ára er óhætt að segja að Grindavíkurhöfn og innsiglingin að henni eru dæmi um vel heppnaðar framkvæmdir sem aukið hafa aðgengi hafnarinnar og öryggi sjófarenda sem er til góðs fyrir allt samfélagið enda höfnin löngum talin lífæð bæjarins.