Lögreglan Skoteldar
Lögreglan Skoteldar

Pistlar

Leikhús
Sunnudagur 3. nóvember 2019 kl. 11:23

Leikhús

Lokaorð Ingu Birnu Ragnarsdóttur

Ég elska að fara í leikhús og á tónleika, geri meira að segja talsvert mikið af því. Hef verið nokkuð dugleg að fara á leiksýningar sem áhugaleikhúsið Frumleikhúsið í Reykjanesbæ hefur sett upp undanfarið. Þvílík vinna. Þvílík ástríða. Á einmitt vinkonu sem hefur eytt ófáum klukkustundum við æfingar fyrir uppsetningar á leikverkum í fyrrnefndu leikhúsi. Dugnaðarforkar allt og til háborinnar fyrirmyndar!

Af einhverjum ástæðum hef ég átt meira erindi í Borgarleikhúsið en Þjóðleikhúsið undanfarin ár. Verkin sem hafa verið sett upp þar höfða meira til mín og flest sem ég hef séð verið frábær í alla staði. Metnaðurinn leynir sér ekki, mikið lagt í sviðsmynd og leikararnir sem við eigum eru fáránlega miklir snillingar. Leikritið Sex í sveit sem ég fór á síðast var áður sett upp á Íslandi fyrir um 20 árum síðan, ég sá það einmitt líka þá. Í þetta skipti er leikritinu leikstýrt og staðfært af okkar ástsæla Gísla Rúnari. Ég er enginn Jón Viðar, en það var margt sem sat í mér eftir þessa veislu. Leikritið var fyndið, þrátt fyrir að ég sé enginn sérstakur aðdáandi farsa. Ég og maðurinn minn hlógum mikið og leikararnir fóru allir á kostum og gleðin skein úr andlitum þeirra. Þegar út í bíl var komið vottaði samt sem áður fyrir örlítilli sorg hjá mér. Ég gat ekki sett fingur á hvað það var en í umræðum við manninn minn komst ég að því að ég þurfti að spyrja mig að því hvort mig hafi dreymt „metoo“ byltinguna eða hvort hún hafi raunverulega átt sér stað. Leikstjórinn er jú kominn vel á aldur og hann gæti hafa gleymt því hvert við erum komin varðandi staðalímyndir og kyngeringu kvenna. Ein af leikkonum sýningarinnar var nefnilega næstum á nærfötum einum klæða alla sýninguna. Stórglæsileg stúlka og fáránlega efnileg leikkona. Ég átta mig hreinlega ekki á af hverju hún þurfti að vera svo fáklædd. Það bætti engu við sýninguna og satt best að segja fannst mér þetta draga hennar hlutverk niður um nokkur þrep í gæðum. Dóttir mín er að læra leiklist í LHÍ og ég ræddi við hana hvort þetta viðgengist ennþá í leiklistinni, að konur væru gerðar að kynverum frekar en að leyfa hæfileikum þeirra að njóta sín til fulls á sama hátt og karlanna. Sem betur er það ekki svo og innan LHÍ er mikil meðvitund um þessa tilhneigingu sem hefur tíðkast gagnvart kvenkyns leikkonum. Auðvitað er ég fullviss um það að metoo byltingin skili sér til næstu kynslóða leikstjóra og leikara sem munu rétta úr þessari villu, eins og með svo margt annað sem komandi kynslóðir munu þurfa að leiðrétta.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs