Pistlar

Kokkurinn í sjokki eftir drónamyndatöku
Myndin tengist ekki efni pistilsins.
Jón Steinar Sæmundsson
Jón Steinar Sæmundsson skrifar
sunnudaginn 20. júní 2021 kl. 09:35

Kokkurinn í sjokki eftir drónamyndatöku

Í þessu ljósmyndastússi mínu hef ég séð ýmislegt og lent í ýmsu skemmtilegu og einnig öðru miður skemmtilegu.

Þetta spannar allt frá því að ná að manni finnst einstökum augnablikum á mynd upp í það að næstum drepa sig við það að fanga þessi augnablik. Einnig hef ég fengið mjög svo fjölbreyttar og jafnvel skrítnar beiðnir varðandi ljósmyndunina að maður er eiginlega hættur að verða hissa. Þetta spannar beiðnir um að mynda brúðkaup, afmæli, bíla, báta, fólk, jarðarfarir, mat, landslag, æviskeið, dýr, hús, garða og svo margt fleira.

Public deli
Public deli

En vindum okkur nú að sögunni.

Það „skeði“ nefnilega fyrir mig á dögunum þegar ég var að mynda bát, eins og ég hef gert nokkrum sinnum áður að eftir að hafa sett drónann á loft niður á kambi, fylgt bátnum til hafnar og myndað í bak og fyrir, sjá skipverja koma upp á dekk og græja spotta og þess háttar áður en komið var í land. Að loknu fluginu pakkaði ég dótinu saman og skaust niður á kajann til að spyrja skipverja á viðkomandi bát frétta um fiskirí, staðsetningar og fleira til að geta látið fylgja með myndbirtingunni á bátasíðunni hjá mér.

Ég hitti fyrir skipstjóra bátsins ásamt fleirum og ekki stóð á svörum og menn bara léttir á því. Skipsstjórinn spurði mig að því eftir að ég hafði gengist við því að vera maðurinn með drónann hvort ekki væri hægt að sjá þessar myndir einhversstaðar. Ég sagði honum eins og satt var að ég héldi úti fésbókarsíðunni Báta og bryggjubrölt og myndi birta eitthvað þar. „Já, ert þú gaurinn með þá síðu?“ spurð’ann og kvaðst fylgjast grannt með henni og hlakkaði til að sjá.

Nema hvað! Rétt eftir að ég kem heim koma skilaboð frá þessum sama skipstjóra í pósthólf síðunnar sem spyr: „Er hægt að ná í þig í síma?“

Mín fyrsta hugsun var að hann ætlaði bara að sverma fyrir myndum og svaraði honum um hæl að ég væri ekkert öðruvísi en meirihlutinn hvað varðaði það að vera í símasambandi og sendi honum númerið mitt. Ég hafði varla lokið við að hamra númerið á lyklaborðið þegar síminn hjá mér hringdi.

Þar kynnti sig umræddur skipstjóri og tjáði mér að kokkurinn hjá sér hafi komið upp í brú til sín á öðru hundraðinu eftir að hafa frétt af því að þessi með drónann hefði verið slúbertinn sem héldi úti umræddri bátasíðu og í vændum væri myndbirting af bátnum á leið til hafnar.

Svo kom erindið! Málið var nefnilega það að ef svo óheppilega hefði viljað til að ég hafi náð myndum af kokknum vera að reykja uppi á dekki, var ég vinsamlegast beðinn um að birta ekki þær myndir þar sem að fjölskylda hans mætti ekki frétta af þessu. Auðvitað sór ég og sárt við lagði að birta ekki myndir af reyk.

En svona geta nú beiðnirnar verið skrítnar og fyndnar.