Pistlar

Hvenær var loðnu síðast landað á Suðurnesjum?
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 25. mars 2022 kl. 09:15

Hvenær var loðnu síðast landað á Suðurnesjum?

Loðnan er komin. Bræðslurnar í Sandgerði, Helguvík og Grindavík yfirfullar af loðnu, unnið í loðnufrystingu í mörgum frystihúsum í Keflavík, Sandgerði, Garði og Grindavík, og ilmurinn af loðnunni leikur um alla bæði ...

... eða ... hmm, nei. Það er víst árið 2022 og búið að loka öllum bræðslum á Suðurnesjum og þrátt fyrir að jú, loðnan sé fyrir utan og skipin eru að veiða hana þá kemur ekkert til Suðurnesja. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Eins og ég hef áður skrifað um í þessum pistlum þá er þetta ansi grátlegt að svona sé staðan. Sérstaklega þegar horft er til sögunnar. Því það voru bátar frá Suðurnesjum sem hófu loðnuveiðar. Vonin KE var sá fyrsti og  Árni Magnússon GK var þar á eftir og fyrsta loðnubræðslan sem tók á móti loðnu var í Sandgerði.

Hvenær var þá loðnu síðast landað á Suðurnesjunum? Lítum á Grindavík. Þar var loðnu landað alveg fram á vetrarvertíðina 2005 en í febrúar árið 2005 kom upp mikill eldur í fiskimjölsverksmiðju Samherja í Grindavík. Þessi verksmiðja hét áður Fiskimjöl og Lýsi en Samherji keypti verksmiðjuna árið 1997 og gerði miklar endurbætur á verksmiðjunni, jók t.d. afkastagetu hennar í um 1.500 tonn á sólarhring. Þegar að bruninn varð í verksmiðjunni í Grindavík í febrúar árið 2005 þá var ekki lið nema rúmt eitt ár frá því að verksmiðjan var að fullu endurbætt. Allur brennslubúnaður verksmiðjunnar eyðilagðist í þessum stórbruna, búnaður til hrognatöku skemmdist ekki, 

Síðasti báturinn sem landaði loðnu í Grindavík var Háberg GK 299 sem landaði loðnu þann 14. mars árið 2005 alls 427 tonnum. Eftir þessa loðnuvertíð í Grindavík var verksmiðjan rifin og í dag er ekkert sem minnir á að þar hafi verið stór og mikil verksmiðja

Það var ekki eldur sem lagði niður verksmiðjuna í Sandgerði. Eins og að ofan segir var lengi vel bræðsla sem Guðmundur á Rafnkelsstöðum í Garði rak í Sandgerði, síðan tók Hafliði Þórsson og fyrirtæki hans Njörður hf. við rekstrinum og gerði meðal annars út loðnubátana Dagfara GK og Sjávarborg GK.

Árið 1997 var fyrirtækið selt til Snæfells hf. og það fyrirtæki átti þá orðið ansi margar eignir víða um landið. Loðnuverksmiðjan í Sandgerði var lengi vel með fremur litla afkastagetu eða um 300 til 400 tonn á sólarhring en þegar Snæfell hf. keypti fyrirtækið var afkastageta hennar aukin í um 600 tonn á sólarhring. Loðnulöndun í Sandgerði jókst að nokkru þau ár sem að Snæfell rak fyrirtækið og t.d. kom hið mikla aflaskip Súlan EA ansi oft og og bátur sem hét Birtingur NK. 

Árið 2001 kaupir Síldarvinnslan Snæfell og átti SVN þá orðið verksmiðjuna í Helguvík. Árið 2003 þá var öllu starfsfólki verksmiðjunnar í Sandgerði sagt upp og var það mikið kjaftshögg fyrir Sandgerði, m.a. vegna þess að miklar hafnarframkvæmdir voru búnar að vera í gangi til að taka á móti stækkuðum flota af loðnubátum. 

Í viðtali sem tekið var í júní árið 2003, en þá var verksmiðjan í Sandgerði rifin og tækin fóru víða um land, sagði Hermann Jóhann Ólafsson, verksmiðjustjóri, að „væntanlega verður ekki vinnsla framar á uppsjávarfiski hér í þessum bæ framar.“ Því miður þá hefur það reynst rétt. 

Ástæðan fyrir þessari lokun í Sandgerði var sögð minnkaði hráefni. Þarna árið 2003 var sagt að þetta væri þróun sem við getum ekki stöðvað, að verksmiðjurnar fækki og bátarnir stækki. 

Birtingur var síðastur til að landa loðnu í Sandgerði þegar hann landaði 670 tonnum í júlí árið 2002.

Ný verksmiðja var smíðuð í Helguvík árið 1997 og var eigandi hennar SR mjöl. Þessi staðsetning var mjög góð því höfnin var með mjög mikið dýpi og gátu öll stærstu loðnuskipin komist þarna að án nokkura vandræða og nóg pláss var í Helguvík fyrir verksmiðjuna.

Þorsteinn Erlingsson í Saltveri, og lengi vel útgerðarmaður Arnar KE sem var mikið aflaskip á loðnuveiðum, hafði lengi gengið með þá hugmynd að byggja stóra verksmiðju í Helguvík og hafði komið um 1995 upp flokkunarstöð fyrir loðnu sem þá var flokkuð fyrir loðnufrystingu en hratið var þá brætt í Sandgerði og Grindavík. Þessi verksmiðja í Helguvík var nokkuð öflug gat brætt tæp 1.000 tonn á sólarhring. 

Árið 2001 kaupir Síldarvinnslan SR mjöl og eins að ofan getur þá bitnaði þá á loðnuverksmiðjunni í Sandgerði en verksmiðjan í Helguvík var rekin áfram og gekk rekstur hennar vel. En árið 2019 var tekin ákvörðun um að SVN myndi loka verksmiðjunni í Helguvík og var það ansi mikill áfall fyrir Reykjanesbæ, sem og Suðurnesin öll, því með lokun þessarar verksmiðju var líka lokað á það að loðna væri fryst í á Suðurnesjunum eins og hafði verið gert í um 50 ár. Hákon EA var sá síðasti til að landa loðnu í Helguvík, í desember árið 2018.

Já, loðnan er komin en allt er svo dapurlegt við það varðandi Suðurnesin.