Pistlar

Hvatningin: Lífið, árangur og vonbrigði
Mánudagur 16. desember 2019 kl. 07:41

Hvatningin: Lífið, árangur og vonbrigði

Af hverju ná sumir árangri en aðrir ekki? Er hægt að snúa vonbrigðum í árangur?

Lykilatriði er að átta sig á að það skiptir ekki máli hvort árangurinn er lítill eða mikill. Hvort sem það er í samböndum, heimili, fjölskyldu, vinnu, íþróttum, hreyfingu, viðskiptum eða hverju sem er. Þetta snýst einfaldlega um vana og venjur. Það er í raun jafn auðvelt að venjast því að vera árangursríkur eins og að vera það ekki.

Þannig að ef maður vill upplifa sig sem sigurvegara þá þarf aðeins tvö atriði til að ná árangri; Löngun og mikla vinnu. Ef löngunin er nógu mikil þá þarf maður að vera tilbúin/n að leggja vinnuna á sig. Út frá því er gott að búa til lista um það sem maður vill bæta, svo er að forgangsraða því sem mann langar mest til að breyta. Ef listinn er langur þá er mjög mikilvægt að einblína á aðeins eitt í einu, í mesta lagi tvö atriði, sem mann langar mest til að laga eða bæta. Maður þarf að vera raunsær, gera sér grein fyrir því að maður á eftir að klikka nákvæmlega á því sem maður ætlaði sér að gera. Svo þarf að gera ráð fyrir því að það mun ekki allt ganga eins og mann langar í upphafi. Í raun er þetta eina atriðið sem skilur á milli þessara hópa. Sigurvegarar halda alltaf áfram, gefast aldrei upp og læra af mistökum sínum, á meðan hinir gefast upp.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þegar maður veit í hverju maður ætlar sér að ná árangri, þá eru langtíma markmið ekki góð heldur eru markmið til styttri tíma ávallt vænlegust (1-3 vikur). Síðan er að einblína á daginn í dag og daginn á morgun. Af hverju? Að horfa of langt fram í tímann er aðeins draumur sem er ekki orðinn að veruleika. Vinnan í dag og á morgun og hinn er það sem býr til árangur og gerir drauminn raunverulegan í framtíðinni.

Þú þarft ekki að vera frábær til að byrja en þú þarft að byrja til að verða frábær!

Gangi þér vel!

Sævar Ingi Borgarsson,

Osteópati B.Sc. og eigandi Superforms.